Gunnar Marel sýnir á Menningarnótt

Á Menningarnótt, laugardaginn 24. ágúst, heldur Selfyssingurinn Gunnar Marel Hinriksson ljósmyndasýninguna "Reykjavík – mannlíf og innkaupakerrur" í garðinum við Skólavörðustíg 38.

Sýningin samanstendur af myndum úr tveimur ólíkum áttum, annars vegar mannlífsmyndum teknum í miðborg Reykjavíkur með hefðbundinni tækni, þ.e. á svarthvíta filmu og hins vegar myndum af yfirgefnum innkaupakerrum, fundnum í borgarlandslaginu, teknar með snjallsímaforritinu Instagram. Andstæður myndefna og aðferða sýna Reykjavík á nýjan og óvæntan hátt.

Sýningin tekur einnig tillit til þess að tveimur dögum fyrir menningarnótt, 22. ágúst, er alþjóðlegur dagur götuljósmyndunar.

Árið 2011 gaf bókaútgáfan Sæmundur út ljósmyndabók Gunnars, Selfoss og 2012 hlaut hann verðlaun í ljósmyndakeppni Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Sýningin verður laugardaginn 24. ágúst í garðinum við Skólavörðustíg 38 klukkan 13-17.

Fyrri greinFannar og Teitur með átta titla
Næsta greinSkrifað undir lóðarleigusamning vegna hótelbyggingar