Gunnar fræðir gesti um særingar gegn gigt

Gunnar Marel og Kveisustrengurinn.

Selfyssingurinn Gunnar Marel Hinriksson, sérfræðingur í Handritasafni Landsbókasafns Íslands, verður með leiðsögn um Kveisustrenginn í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 18. maí kl. 14:00.

Leiðsögnin er í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum og er aðgangur ókeypis. Leiðsögnin hefst kl. 14:00 á íslensku og 15:00 á ensku.

Í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er að finna 400 ára gamalt dökkt og máð skinnblað með safnmarkið Lbs fragm. 14, sem á eru ritaðar særingar gegn kveisu og gigt. Skinnblaðið er nú til sýnis í Safnahúsinu. Gunnar mun sérstaklega fjalla um kveisustrenginn og þau verk á sýningunni sem tengjast galdri og 17. öld en einnig mun Jón lærði Guðmundsson koma við sögu. Leiðsögnin verður kl. 14 á íslensku og kl. 15 á ensku.

„Ég særi þig gigt og kveisa burt að flýja, ég mana þig, ég deyfi þig, ég drep þig kveisa.“ Þetta er meðal þess sem ritað er á skinnblaðið sem er frá því um aldamótin 1600. Blaðið er 58,4 x 10,8 sm að stærð og er texti á báðum hliðum þess, bæði á latínu og íslensku. Efni textans er særingar gegn kveisu og gigt og á strengnum er að finna ritningatexta úr latínu og særingar á íslensku inn á milli. Særingar hafa tíðkast frá árdögum mannkyns í öllum trúarbrögðum, meðal annars til lækninga, enda aðgengi að heilbrigðisþjónustu langt frá því sem við þekkjum í dag. Eftir siðaskipti tóku veraldleg yfirvöld og kirkjan að líta mjög neikvæðum augum á þessar tilraunir til lækninga og beittu sér gegn þeim. Skinnblöð af þessu tagi voru langflest eyðilögð í galdraofsóknunum og því er kveisustrengurinn sem nú er til sýnis einstakur minnisvarði um tilraunir fólks til lækninga með aðferðum sem hið opinbera vann mjög á móti.

Sýningin er sett er upp í tilefni af 200 ára afmæli Landsbókasafnsins.

Fyrri greinAf hverju var ekki önnur bókaspurning?
Næsta greinTRS eitt af fyrirtækjum ársins 2019