Gullkistan: 20 ár – sýningarlok

Sunnudagurinn 11. október er síðasti sýningardagur hinnar fjölsóttu sýningar, Gullkistan:20 ár í Listasafni Árnesinga þar sem sjá má verk eftir tuttugu og fjóra listamenn af átta þjóðernum.

Það sem listamennirnir eiga sameiginlegt eru tengsl við Gullkistuna á Laugarvatni, annað hvort sem þátttakendur í listahátíðum Gullkistunnar eða dvalargestir í miðstöð sköpunnar. Fenginn var sýningarstjóri frá New York, Ben Valentine, til þess að velja verkin á sýninguna og það er því sýn gestsins sem sýningin endurspeglar og í verkum erlendu listamannann má sjá áhrif frá Íslandsdvöl þeirra.

Forsaga sýningarinnar er starfsemi myndlistarmannanna Öldu Sigurðardóttur og Kristveigar Halldórsdóttur á Laugarvatni undir heitinu Gullkistan. Undir því nafni efndu þær til listahátíðar árið 1995 og aftur 2005 sem urðu kveikjan að dvalarstað fyrir skapandi fólk. Þeirri hugmynd hrundu þær í framkvæmd og til varð Gullkistan – miðstöð sköpunar, sem í dag hefur sitt aðal aðsetur í gömlu tjaldmiðstöðinni, en starfemin hefur náð til ýmissa staða á Laugarvatni og hófst í gamla Héraðsskólanum.

Af þessu tilefni var sett upp sýning í Listasafni Árnesinga sem endurspeglar 20 ára starfsemina og einnig eru þar aðgengilegar ýmsar heimildir um hátíðirnar tvær og miðstöðina ásamt aðstöðu fyrir gesti til sköpunar.

Síðasta sýningardaginn, sunnudaginn 11. október kl. 15 mun Kristveig leiða gesti um verkin á sýningunni og segja um leið frá starfseminni þessi tuttugu ár og svara spurningum sem vakna.

Sýningin, sem er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Gullkistunnar er styrkt af uppbyggingarsjóði Suðurlands. Aðgangur að safninu og leiðsögninni er ókeypis og allir velkomnir.

Fyrri greinAllt húsnæði selst og skortur á vinnuafli
Næsta greinFrábært textamyndband frá Elínu Helenu