Guðrún opnar sýningu í Sesseljuhúsi

Laugardaginn 3. júní kl. 15:00 opnar Guðrún Arndís Tryggvadóttir sýninguna ONÍ í vestursal Sesseljuhúss umhverfisseturs á Sólheimum í Grímsnesi. Sýningin stendur til 20. ágúst.

„Í verkunum á sýningunni er ég að kafa ofan í (ONÍ) efnisheiminn, jörðina og hafið og reyna að skoða sögu okkar í jarðlögum annars vegar og ástandi lífsins í hafinu hins vegar. Með verkunum er ég að leitast við að leiða mig sjálfa og nú áhorfendur, í ferðalag til að skoða það sem er okkur annars ekki sýnilegt og við leiðum hugann jafnvel ekki að, öllu jafna,“ segir Guðrún Arndís.

„Í stórum dráttum má segja að ég sé að fjalla um tímann, breytingar sem verða á umhverfið beint og óbeint af okkar völdum og þá staðreynd að öll efnisleg gæði, grundvöllur lífs okkar, komi úr jörðinni og úr hafinu og snúi þangað aftur að lokum.“

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún fékk inngöngu í Myndlista- og handíða Íslands sextán ára gömul, fór í framhaldsnám til Parísar og síðan til München þar sem hún hlaut æðstu verðlaun akademíunnar við útskrift. Tveggja ára dvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið en síðan starfaði hún í Berlín, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Guðrún sneri aftur til Íslands um aldamótin 2000. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði á sviði umhverfismála og menningarmiðlunar sem og fyrir myndlist sína. Verk hennar byggja á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni en hún gerir sífellt tilraunir með nýja tækni og frásagnaraðferðir í list sinni.

Nánar um verk og feril Guðrúnar á www.tryggvadottir.com

Guðrún Arndís Tryggvadóttir. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinTíu Selfyssingar héldu aftur af Þrótturum
Næsta greinEinstök kvöldstund með Bjartmari í kvöld