Guðrún listamaður mánaðarins í Gallery Listasel

Guðrún við verk sitt í Gallerý Listasel. Ljósmynd/Aðsend

Listamaður janúarmánaðar í Gallery Listasel í miðbæ Selfoss er Guðrún Arndís Tryggvadóttir. Af því tilefni tekur hún á móti gestum í galleríinu frá kl. 16:00-18:00 fimmtudaginn 12. janúar og eru allir hjartanlega velkomnir.

Verkið sem Guðrún sýnir heitir „Við saman“ og er ristastórt og úr myndaseríu sem hún vann á árunum 2014-16 þar sem tíminn og kynslóðaskiptin eru viðfangsefnið. Verkið hefur aldrei verið sýnt opinberlega áður. Guðrún lýsir því svo að hún hafi haft þörf fyrir að leita leiða til að sjá tímann á nýjan hátt, tengjast formæðrum sínum og sjá hvað þær eigi allar sameiginlegt þó að tíminn skilji þær að.

Frumkvöðull á ýmsum sviðum
Guðrún er fædd í Reykjavík en hefur búið á Suðurlandi síðan 2006. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, École nationale supérieure des Beaux-Arts í París og Akademie der Bildenden Künste í München þar sem hún útskrifaðist með láði.

Guðrún hefur haldið sýningar hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum og hlotið fjölda viðurkenninga, bæði fyrir myndlist sína og störf á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum, stofnað og rekið myndlistarskólann Rými og listrænu hönnunarstofuna Kunst & Werbung sem hún rak í Þýskalandi og hér á landi um árabil. Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um tíu ára skeið.

Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar er olía á striga en hin stóru málverk hennar eru mjög persónuleg og byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni. Guðrún rekur einnig fræðslu- og útgáfufélagið Listrými og starfrækir vinnustofu sína á Selfossi. Meira um list og feril Guðrúnar má sjá á tryggvadottir.com.

Fyrri greinFærði safninu einstaka bókargjöf
Næsta greinFSu og ML keppa í kvöld