Guðrún sýnir í hlöðunni í Alviðru

Laugardaginn 26. september kl. 14:00 opnar Guðrún Tryggvadóttir sýningu á nýjum verkum í hlöðunni í Alviðru. Sýningin stendur til sunnudagsins 4. október.

Guðrún hefur um skeið unnið að seríu málverka um formæður sínar, tímann og endurnýjun kynslóðanna, myndir sem þurfa að koma undir gests augu nú á aldarafmæli kosningaréttar kvenna yfir fertugt og eignalausra karla. Að því tilefni opnar Guðrún vinnustofu sína í Alviðru í rúma viku þar sem gestum gefst kostur á að kynnast verkum hennar og ræða við hana um hugmyndirnar.

Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958 og sýndi snemma afburða hæfileika sem teiknari. Hún hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands aðeins 16 ára gömul og var komin í framhaldsnám til Parísar um tvítugt og til München í framhaldinu. Þar hlaut hún æðstu verðlaun skólans við útskrift árið 1983. Tveggja ára viðdvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið, starfslaun listamanna og einkasýning að Kjarvalsstöðum árið 1987 en síðan lá leiðin til Berlínar og síðan Bandaríkjanna þar sem hún stundaði list sína og sýndi í virtum galleríum. Hún átti eins árs viðdvöl á Íslandi veturinn 1992-3 og setti þá á fót myndmenntaskólann RÝMI sem naut mikilla vinsælda.

Síðan lá leiðin aftur til Þýskalands þar sem hún stofnaði listræna auglýsingastofu Kunst & Werbung og gat sér gott orð sem hönnuður dagblaða, útlits fyrirtækja og borgarminnisvarða svo fátt eitt sé nefnt. Guðrún sneri síðan alkomin heim um aldamótin 2000 og vann fyrstu árin hér heima sem hönnuður hjá Latabæ og rak síðan sína eigin auglýsingastofu Art-Ad og mótaði m.a. efni fyrir Fréttablaðið fyrstu ár þess.

Fljótlega varð henni náttúruvernd og umhverfisfræðsla svo mikilvæg að hún hóf undirbúning að stofnun umhverfisvefsins Náttúran.is strax árið 2004, vefs sem hefur haft mikil áhrif á umhverfismeðvitund Íslendinga og unnið til fjölda viðurkenninga. Náttúran.is ryður stöðugt nýjar brautir með tækninýjungum og aðferðafræði s.s. með öppunum Húsið og umhverfið, Endurvinnslukortinu og nú síðast Grænu korti fyrir Suðurland.

Fyrri greinHamar tapaði heima
Næsta greinDagný best í seinni umferðinni