Guðrún frá Lundi slær sölumet

Bókin Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi er nú í fyrsta sæti metsölulista verslana Eymundsson og er hún sömuleiðis söluhá hjá öðrum bóksölum.

Bókin sem fyrst kom út árið 1950 var um síðastliðinn mánaðamót endurútgefin af Bókaútgáfunni Sæmundi sem rekin er í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi.

Það er fyrsta endurútgáfa á verkum Guðrúnar frá árinu 2000 þegar Dalalíf kom út hjá Máli og menningu. Afdalabarn er mögnuð saga sem fjallar um einangrun og ást í íslenskri sveit fyrir einni öld síðan. Guðrún var metsöluhöfundur á Íslandi á þriðja aldarfjórðungi 20. aldar en naut þó ekki viðurkenningar fyrir skrif sín.

Á síðustu árum hefur bókmenntageirinn á Íslandi endurmetið sögur Guðrúnar enda býr höfundurinn yfir fágætri frásagnargáfu og raunsæislegar lýsingar hennar á sveitalífinu fanga huga lesenda.

Nóbelskáldið Halldór Laxnes var einn fárra sem tók upp hanskann fyrir Guðrúnu frá Lundi á síðustu öld og kallaði hana ævintýrakerlingu íslenskra bókmennta. Hver sá sem les Afdalabarn sannfærist um réttmæti þeirra palladóma.

Fyrri greinHæsta tré landsins er á Kirkjubæjarklaustri
Næsta greinEkki fleiri stöðvaðir síðan 2008