Guðni ræðir pólitíkina í Njálu

„Það skilur þær að að Jóhanna er ekki með kartnögl á öllum fingrum eins og Hallgerður,“ segir Guðni Ágústsson sem flytur erindi um Njálu í Ásgarði við Hvolsvöll kl. 15 í dag.

Guðni hefur þegar tilgreint að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, eigi sér tvífara í Hallgerði langbrók, eiginkonu Gunnars. „Það hafa reyndar nokkrir mótmælt þeirri samlíkingu við mig strax,“ segir Guðni.

Í erindinu í Ásgarði mun Guðni greina hvaða stjórnmálamenn samtímans er hægt að bera saman við persónur úr Njálu.

„Já, ég hef greint pólitíkina í Njálu en ekki borið mikið saman helstu persónur nútímans við hetjurnar og skúrkana þá,“ segir Guðni en þetta forvitnilega erindi hans mun standa í eina klukkustund.