Grunnskólanemar sýna í bókasafninu

Á Bókasafninu í Hveragerði stendur nú yfir sýning á verkum nemenda Grunnskólans í Hveragerði sem unnin voru nú í vor.

Þetta eru valin verk úr handmennt og myndmennt sem nemendur samþykktu að lána á sýninguna. Þetta er ekki úrval alls vetrarins, en sýnir þó hve fjölbreytt og skemmtileg verkefni nemendur fást við í þessum greinum.

Greinilegt er að bæði nemendur og kennarar leggja metnað í vinnuna og gætu þarna verið á ferð einhverjir af listamönnum framtíðarinnar.

Sýningin gæti tekið breytingum á sýningartímanum, því skóla er ekki lokið og einhverjir vilja kannski bæta við verkum þegar þau eru tilbúin.

Mynd- og handmenntakennarar GÍH eru Auðbjörg Jónsdóttir, Daði Steinn Arnarsson, Guðjón Árnason, Kolbrún Vilhjálmsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir.

Sýningin, sem stendur út maímánuð, er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinSveitarfélagið beiti sér gegn uppboðum
Næsta greinRæða samstarf um fjölgun hjúkrunarrýma