Gréta Berg sýnir á Bókasafninu í Hveragerði

Í dag kl. 18 verður myndlistarsýning Grétu Berg „Leyndardómar steinanna“ opnuð á Bókasafninu í Hveragerði.

Allir eru hjartanlega velkomnir á þessa sýningaropnun sem er hluti af Leyndardómum Suðurlands. Þar mun Gréta segja frá tilurð verkanna og boðið verður upp á hressingu.

Á sýningunni, sem er sölusýning, eru 13 olíumálverk sem öll túlka það sem Gréta sér í steinum sem hún hefur fundið úti í náttúrunni. Í hverjum steini geta verið margar myndir og það er heillandi að sjá hvað Gréta sér út úr örsmáum litbrigðum í steinunum. Einnig verða til sýnis nokkrir steinar sem Gréta hefur málað.

Gréta er frá Akureyri en hefur búið í Hveragerði í nokkur ár. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og vinnur á Heilsustofnun NLFÍ. Gréta hefur teiknað frá barnsaldri. Hún stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann 1966-7, við Myndlistaskólann á Akureyri 1982, við kvöldskóla FB vorið 1999, við Endurmenntunardeild H.Í vor og sumar 1999 (listmeðferð), við Myndlistaskóla Reykjavíkur haustið 1999 (portrettmálun) og við Listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 2002-2005. Myndir hennar eru ljóðrænar og út úr þeim má gjarna lesa sögur.

Gréta tók þátt í samsýningum á Akureyri og starfaði með Myndhópnum þar á árunum 1982 -´90. Hún hefur haldið margar einkasýningar, á Akureyri, Ísafirði, í Mosfellsbæ og Reykjavík. Þetta er þriðja sýning hennar á bókasafninu.

Sýningin stendur til 28. apríl. Hún er opin á sama tíma og safnið, virka daga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14. Á meðan Leyndardómar Suðurlands standa yfir verður aukaopnun laugardagana 29. mars og 5. apríl til kl. 15 og sunnudaginn 6. apríl kl. 13-16.