Grenilyktin minnir á jólin

Jóhanna Margrét Hjartardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jóhanna M. Hjartardóttir í Þorlákshöfn svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er mikill jólaálfur.
Uppáhalds jólasveinn? Það er Kertasníkir. Það fylgir honum ákveðinn sjarmi og eftirvænting. Hann er sá síðasti og jólin alveg að koma.
Uppáhalds jólalag? Ó Helga nótt, í flutningi Sissel Kyrkjebø er mitt uppáhalds.
Uppáhalds jólamynd? Ég er mikið fyrir spennumyndir og verð ég að nefna Die Hard 1 sem þá bestu en ef ég er á ljúfu nótunum verður The Holiday fyrir valinu.
Uppáhalds jólaminning? Það er æskuminning í byrjun aðventu þegar pabbi minn kom úr bílskúrnum með heimatilbúinn aðventukrans búinn til úr netahring úr korki og skreyttum greinum. Grenilyktin minnir á jólin og voru skreytingarnar einfaldar og fallegar.
Uppáhalds jólaskraut? Það er kertastjaki sem geymir kerti við hliðina á sofandi jólasvein. Hann á heiðursess hjá mér á píanóinu.
Minnistæðasta jólagjöfin? Það er engin sérstök. Hver gjöf á sinn sjarma á þeim tíma.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Að hlusta á jólalög og að lýsa upp skammdegið með jólaljósum.
Hvað er í jólamatinn? Við erum ekki mjög hefðbundin varðandi aðfangadagsmáltíðina og höfum við prófað fjölbreytta veislurétti. Við fjölskyldan elskum góðan mat og er trúlega eftirminnilegast þegar hver fjölskyldumeðlimur gerði einn veislu smárétt sem var borinn fram með viðhöfn og útskýringum. Á jóladag höfum við borðað hangikjöt hjá Ester systir og Halldóri.
Ef þú ættir eina jólaósk? Jólaóskin er risastór en hún væri að skapa frið á jörðinni, fyrirmyndar umgengi og farsæld.

Hér fyrir neðan eru tvær skemmtilegar myndir sem Jóhanna sendi okkur, á jólunum heima í stofu og á jólaballi.

Fyrri greinGul viðvörun á aðfangadag
Næsta greinÓmissandi að syngja í Dómkirkjunni