Góð mæting á ljóðahátíð

Fjöldi manns mætti á ljóðahátíð Konubókastofu í Rauða Húsinu á Eyrarbakka síðastliðinn sunnudaginn.

Hátt í 120 gestir hlýddu á skáldin Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, Kristrúnu Guðmundsdóttur, Heiðrúnu Ólafsdóttur og Sigrúnu Haraldsdóttur lesa eigin ljóð.

Þar sást glöggt að mikil gróska og kraftur er í ljóðskáldum landsins og voru ljóðin bæði í efni og formi mjög fjölbreytt. A

nna Þorbjörg Ingólfsdóttir fjallaði um skáldkonuna Guðfinnu Þorsteinsdóttur sem notaði skáldanafnið Erla. Önnu fannst gaman að nefna það að Guðrún dóttir Erlu var stödd á hátíðinni og las að því tilefni ljóð sem Erla hafði skrifað til dóttur sinnar. Hæfði það vel því Erla sótti mikið af sínu yrkisefni í sitt nærumhverfi.

Dagskráin endaði á ljúfum tónum frá Lay Low og Agnesi Ernu Esterardóttur þar sem þær fluttu t.d. ljóð eftir Huldu og Undínu við eigin tónlist.

Hlaðvarpinn og Menningarsjóður Suðurlands styrktu hátíðina.

Fyrri greinVon á gasmengun í uppsveitum og á hálendinu
Næsta greinÞórsurum spáð 9. sæti og Hamri falli