Gleðistundir hefjast á nýjan leik

L'amour fou. Ljósmynd/Aðsend

Gleðistundir að Kvoslæk í Fljótshlíð hefjast aftur næstkomandi sunnudag með tónleikum salonhljómsveitarinnar L’Amour fou.

L’amour fou (Brjáluð ást) var stofnuð árið 1999 og samanstendur af þeim Hrafnhildi Atladóttur fiðluleikara, Guðrúnu Hrund Harðardóttur víóluleikara, Hrafnkatli Orra Egilssyni sellóleikara, Gunnlaugi Torfa Stefánssyni kontrabassaleikara og Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara.

Sveitin gaf út plötuna Íslensku lögin árið 2005 sem inniheldur gömul íslensk dægurlög í útsetningum Hrafnkels Orra fyrir salonhljómsveit, og sem hefur verið ein mest spilaða
plata Rásar 1 allar götur síðan. Hljómsveitin mun leika lög úr ýmsum áttum að Kvoslæk, meðal annars Tondeleyo, Gling gló, Við gengum tvö, Sveitin milli sanda og Ég er kominn heim.

Miðaverð er 2.500 krónur.

Í fyrrasumar tókst að halda tvo viðburði af fjórum að Kvoslæk en vonandi mun ganga betur í sumar því þrír aðrir viðburðir hafa verið skipulagðir. Laugardaginn 17. júlí segir Hrafnhildur Schram frá Nínu Sæmundsson myndhöggvara, laugardaginn 7. ágúst fræðir Arndís S. Árnadóttir gesti um Ámunda Jónsson í Vatnsdal og sunnudaginn 22. ágúst flytja Rut og vinir hennar þekkt kammerverk.

Fyrri greinHamar vann í hörkuleik – Árborg og KFR töpuðu
Næsta greinErlendur ferðamaður sviptur á staðnum