Gleði og glæsilegheit á Allt í blóma

Reykjavíkurdætur.

Fjölskyldu, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í Blóma verður haldin um næstu helgi í Hveragerði. Boðið verður upp á fjölbreytta tónlistardagskrá sem nær hápunkti með stórtónleikum í lystigarðinum Fossflöt á laugardagskvöldið.

„Þetta er annað árið í röð sem við höldum þessa hátíð. Viðtökur gesta voru góðar í fyrra og við höldum okkar striki til þess að efla tónlistar- og menningarlífið á Suðurlandi. Markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman og bjóða upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason hjá Menningarfélagi Suðurlands, sem stendur að hátíðinni.

Dagskráin hefst á föstudaginn klukkan 17 með fjölskyldutónleikum Reykjavíkurdætra. Um kvöldið verða svo goðsagnirnar Magnús og Jóhann með einstaka tónleika og að þeim loknum heldur trúbador uppi stemningunni.

Sigurgeir Skafti Flosason.

Vegleg og fjölbreytt dagskrá
Á laugardaginn verður margt í boði. Barnadagskrá og markaður frá klukkan 13 og Suðurlandsdjazz með Kidda Svavars og Dagný Höllu klukkan 15. Klukkan 20 á laugardagskvöld verða svo stórtónleikar á útisviðinu þar sem fram koma Jón Jónsson, Stebbi Jak, Unnur Birna, Jógvan Hansen og Guðrún Árný. Síðar um kvöldið verður svo dansleikur í tjaldinu með Stebba Hilmars, Gunna Óla og fleirum. Á sunnudag verður svo kökukaffi á Rósakaffi og stórsveitin Góss endar svo helgina í Reykjadal Skála.

„Þetta er vegleg og fjölbreytt dagskrá og fólk má búast við almennri gleði og glæsilegheitum. Það er frítt á alla viðburði á útisviðinu en annars er miðasala á Tix þar sem hægt er að kaupa helgarpassa eða aðgang að stökum viðburðum. Þetta verður dásamlegt, það er auðvelt að búa til góða skemmtun og glæsilega stemmningu í þessari perlu sem lystigarðurinn Fossflöt er,“ segir Sigurgeir Skafti að lokum.

Magnús og Jóhann.
Fyrri greinAð skara eld að eigin köku -Tveggja bæjarstjóra Sveitarfélagið Árborg
Næsta greinTinni og Gísli Marteinn mæta í sumarlestur fullorðinna