Glansmynd af sumri í Tré og list

Í dag kl. 15 opnar Gréta Gísladóttir myndlistarsýninguna Glansmynd af sumri í Tré og list Forsæti , Flóahreppi.

Í verkunum tvinnast saman dagdraumar, ástarsögur, náttúran og glansmyndin. Hér er um að ræða litrík og skemmtileg verk. Þetta er sölusýning og stendur hún fram í júlí.

Gréta Gísladóttir er fædd á Selfossi 13. febrúar 1973. Hún er dóttir Perlu Maríu Jónsdóttur, frá Litlu-Vallá á Kjalarnesi og Gísla Steindórssonar, frá Sólbakka á Selfossi. Hún gekk í barnaskóla á Selfossi og í Mosfellsbæ, framhaldsskóla í Reykjavík og Akranesi og Fósturskóla Íslands áður en hún fór að læra myndlist.

Gréta útskrifaðist frá Fagurlistadeild Myndlistarskólans á Akureyri síðastliðið vor. Um leið opnaði hún málverkasýningu sem var liður í Kirkjulistaviku á Akureyri 2011. Fyrsta sýning Grétu erlendis var í Galleri Aåkjærs í Vejle í Danmörku árið 2000. Þá hafði Gréta nýlokið námi í málum og glerlist við listaskólann Engelsholm.

Gréta hefur haldið þó nokkrar einkasýningar á verkum sínum. Margar á Suðurlandi, en líka fyrir norðan og vestan. Í maí á þessu ári opnar sýning í Mjólkurbúðinni, sem er gallerí í Listagilinu á Akureyri og seinna í sumar verða myndir til sýnis á Kaffi Mika í Reykholti Biskupstungum.

Fjölbreytta myndlist Grétu má sjá á heimasíðu hennar, www.gretagisla.is
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Tré og list, www.treoglist.is.

Allir hjartanlega velkomnir.

Fyrri greinSelfossvöllur lítur „fáránlega vel út“
Næsta greinÚtflutningur vikurs til Ameríku að aukast