
Fjölskyldu- og tónlistarhátíðin Allt í blóma verður haldin í Hveragerði um helgina. Hátíðin hefur á örfáum árum fest sig í sessi sem ein af sumarhátíðum landsins.
„Þetta verður glæsileg fjölskyldu-, menningar- og tónlistarhátíð hér í lystigarðinum í Hveragerði. Þetta er í fimmta skiptið sem við höldum þessa hátíð, við byrjuðum í Covid 2021 sem var frábær hugmynd á þeim tíma,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason og hlær þar sem við stöndum í logninu í lystigarðinum Fossflöt í Hveragerði.
Sigurgeir Skafti og Unnur Birna Björnsdóttir standa að hátíðinni, „mögulega í síðasta skiptið, það verður að koma í ljós,“ segir Skafti og bætir við að það verði bara gaman að hætta leik þá hæst hann stendur en þau hjónin eru með mörg járn í eldinum.
Besta veðrið í Hveragerði
„Það er ókeypis aðgangur að allri dagskrá hátíðarinnar og það er búið að lofa okkur besta veðrinu á landinu, þannig að þetta verður frábært. Við erum búin að sjá það í gegnum tíðina að það skiptir öllu máli að hafa gott veður,“ segir Skafti en Allt í blóma hefur vaxið jafnt og þétt á síðustu fimm árum.
„Já, þetta er orðinn mjög stór viðburður, sá stærsti í Hveragerði ár hvert. Við erum hérna í frábæru umhverfi, garðurinn heldur vel utan um þetta og það er gaman að segja frá því að hljómburðurinn hérna er æðislegur. Við verðum líka með Haffa tempó, besta hljóðmann landsinsn þannig að þetta verður í topplagi,“ segir Skafti ennfremur.
Stórtónleikar á laugardagskvöldið
Á laugardag verður líf og fjör í lystigarðinum frá 12-15, markaður í tjaldinu, töframaðurinn Lalli, BMX Bros, Aron Can, Tónafljóð og ljúf tónlist með Mánadætrum og Fylgitunglum. Öllum svona hátíðum fylgir að sjálfsögðu candy floss, hoppukastalar, loftboltar og ljúfar veitingar, svo fátt eitt sé nefnt.
„Það verður síðan mikið partí á laugardagskvöldinu, á stórtónleikum undir berum himni með stórstjörnunum Bríeti, Mugison, Jónasi Sig og Úlfi Úlfi og svo leystist þetta upp í allsherjar sveitaball með Jónsa og Unni Birnu í tjaldinu og þar verður dansað fram á nótt,“ segir Skafti.
Jazzað í blíðunni
Á sunnudag kl. 15 verður síðan Suðurlandsdjass og blíð stemning í garðinum. Þar koma fram þær frænkur og „Mánadætur“ Guðlaug Dröfn, Unnur Birna og Dagný Halla skreyta Listigarðinn með jazzi. Með þeim leika þeir Vignir Stefánsson á píanó, Sigurgeir Skafti á bassa og Skúli Gíslason á trommur.
Hátíðin átti að hefjast í kvöld með tónleikum Stjórnarinnar en þeim hefur verið aflýst vegna veikinda Siggu Beinteins. Að sögn Skafta fá þeir sem höfðu tryggt sér miða að sjálfsögðu endurgreitt frá tix.is.
Sem fyrr segir er aðgangur að öllum viðburðum ókeypis en hátíðin er í boði CCEP, SASS og Sub ehf.