Glæsileg dagskrá á þorrablóti í beinu streymi

Þorrablót Sunnlendinga fer fram í beinu streymi næstkomandi laugardagskvöld. Það eru Menningarfélag Suðurlands og velunnarar þess sem standa fyrir blótinu.

„Það var ákveðinn hópur sem leið ekki vel með það að það yrðu engin þorrablót í ár og hjá okkur kviknaði sú hugmynd að streyma veglegu þorrablóti. Í fyrstu skoðuðum við að gera þetta fyrir einhvern þéttbýlisstaðinn en þegar hugmyndin vatt upp á sig þá fannst okkur kjörið að fá stærri samnefnara og fá hreinlega alla með sér af Suðurlandi. Viðtökurnar við þessu hafa verið framar öllum vonum enda er glæsileg dagskrá á blótinu,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason, einn þeirra sem standa að Þorrablóti Sunnlendinga, í samtali við sunnlenska.is.

Endar á alvöru balli
Veislustjórar kvöldsins eru þau Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Sóli Hólm, en ræðumaður kvöldsins er Guðni Ágústsson. Þá munu valinkunnir sunnlenskir tónlistarmenn stíga á stokk; þau Pétur Örn Guðmundsson, Unnur Birna Björnsdóttir, Dísa Geirs & Grétar í Áshól og SS kvartettinn og einnig verður happdrætti að hætti hússins. Formleg dagskrá hefst um klukkan 20 og hún endar á dansleik sem lýkur á tólfta tímanum.

„Já, við endum þetta á alvöru balli. Það verða væntanlega ljúfir tónar í upphafi, dinnertónlist fyrir klukkan átta en þá hefst skemmtidagskráin. Fyrirkomulagið er mjög einfalt; fólk fer inn á tix.is núna í vikunni og kaupir miða eins og um venjulega tónleika sé að ræða. Á föstudag eða laugardag verður svo sent út lykilorð sem fólk notar til þess að nálgast dagskrána á Sjónvarpi Símans, í Apple TV eða snjallsjónvarpi á einfaldan hátt. Ef einhver vandamál koma upp þá verður tæknileg aðstoð í boði frá Tix.is og Sub ehf síðdegis á laugardag,“ bætir Skafti við.

Þetta verður veisla
Sunnlendingar munu þannig njóta þessarar skemmtidagskrár heima, við skjáinn, og geta til að mynda pantað sér þorrabakka frá SS. Í Flóahreppi hafa menningarnefndin og ungmennafélagið Þjótandi gripið tækifærið og bjóða upp á heimsendan mat fyrir íbúa hreppsins. Sömu sögu er að segja á Selfossi, þar sem ungmennafélagið ætlar að bjóða upp á heimsendingu á mat.

„Síðan er einnig hægt að panta þorrabakka frá SS á sudurlandsblot@gmail.com. Þetta verður veisla. Við erum mjög spennt fyrir helginni, það taka allir svo vel í þetta og eru kátir með þetta framtak,“ segir Sigurgeir Skafti að lokum.

Fyrri greinAtli Rafn í Selfoss
Næsta greinDanska lögreglan leitar að Freyju Egilsdóttur