Glæsilegir útskriftartónleikar Glódísar

Glódís Margrét Guðmundsdóttir, píanóleikari úr Þykkvabæ, fékk frábæra umsögn um útskriftartónleika sína frá Tónlistarskóla Rangæinga sem haldnir voru í Selinu á Stokkalæk fyrir skömmu.

Tónleikarnir voru hluti af burtfararprófi eða framhaldsstigsprófi Glódísar sem hún lauk í apríl með einkunnina 9,5, en sú einkunn er óvenju há fyrir svo langt komna nemendur og fengu tónlistarskólinn, og að sjálfsögðu Glódís, mikið lof frá prófanefnd tónlistarskóla fyrir það og einnig fyrir einstaklega vel heppnaða tónleika.

Fullt var út úr dyrum í Selinu og ríkti frábært andrúmsloft á tónleikunum. Þar flutti Glódís meðal annars verk eftir Bach, Brahms, Rachmaninoff og Saint-Saens.

Þórarinn Stefánsson var prófdómari og í umsögn hans má meðal annars lesa að öll umgjörð um tónleikana hafi verið til mikillar prýði og þeim sem að þeim stóðu til sóma. „Efnisskrá var óvenju vönduð og vel úr garði gerð. Andrúmsloftið var hátíðlegt en jafnframt ríkti vinalegur blær yfir tónleikunum. Það sem eftir situr er lifandi og einlægur flutningur Glódísar á nokkrum af merkari verkum píanóbókmenntanna. Glæsilegur endir á gæfuríku samstarfi við kennara sinn en jafnframt fljúgandi start inn í nýtt tímabil í náminu,” segir í umsögn Þórarins.

Glódís tók vel heppnað inntökupróf í Listaháskóla Íslands í apríl og mun hefja þar nám í haust hjá Peter Maté en hún varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni um síðustu helgi.

Fyrri greinMjúk málsnilld orðanna í Skálholti
Næsta greinÞykkvibær er sveit