Glæsileg hátíð á Selfossi um næstu helgi

Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi verður sett síðdegis á miðvikudag en henni lýkur á sunnudag. Hápunkturinn er á laugardag með morgunverði, fjölskyldudagskrá, sléttusöng og flugeldasýningu.

Hátíðin verður sett við bókasafnið á Selfossi á menningarlegum miðvikudegi. Á fimmtudag verða stórtónleikar í bæjargarðinum þar sem Úlfur Úlfur mun stíga á stokk ásamt sunnlenskum hljómsveitum og plötusnúðum. Miðaverð 1.500,- við dyr, en 1.000 í forsölu. Forsala 4.-6. ágúst nk. hjá Bónus frá 16:00 – 18:00.

Á föstudag verða stórtónleikar Gunnars Þórðarsonar. Fimm manna band með söngvarana Unu Stefánsdóttur og Stefán Jakobsson innanborðs, taka bestu lög Gunnar í hátíðartjaldinu í Sigtúnsgarðinum. Tónleikar sem þú vilt ekki missa af. Miðaverð 2.500,- en forsöluverð kr. 1.500,- Forsala í Bónus 4. – 7. ágúst nk. frá 16:00 – 18:00. Undanfarin ár hefur verið uppselt á þessa tónleika og því mælir nefndin með því að þú tryggir þér miða í tíma.

Á laugardag verður mögnuð afþreying í Sigtúnsgarðinum allan daginn, afmælishátíðir, bílasýning, tívolí, loftboltar, froðufjör, vindmyllumsmíði, listasmiðjur, menningarviðburðir, handverksmarkaður, barnadagskrá, töframaðurinn Einar einstaki, BMX Brós o.fl. o.fl. Um kvöldið verður svo hinn frábæri sléttusöngur undir stjórn Magnúsar Kjartans Eyjólfssonar. Flugeldasýning í boði Bílverk BÁ og svo ball með Bjórbandinu á eftir.

„Ef þetta er ekki eitthvað sem vekur tilhlökkun þá erum við vonsviknir. Við höfum lagt allt á okkur til að gera þessa hátíð glæsilega fyrir þig. Núna treystum við á að þú hellir þér á fullu í skreytingar strax eftir helgina og fram á laugardag en þá mun dómnefndin taka rúntinn og velja skemmtilegustu götuna. Hlökkum til að eyða helginni með þér,“ segir í tilkynningu frá NEFNDINNI, en það er Knattspyrnufélag Árborgar sem stendur að hátíðinni í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg.