„Gjörsamlega að farast úr spenningi“

Hljómsveitin Moskvít.

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít sendir frá sér nýtt lag í dag og verður það frumflutt á tónlistarhátíðinni Kótelettunni á Selfossi í kvöld.

Hljómsveitin hefur verið að vinna hörðum höndum að nýju efni að undanförnu en nýja lagið heitir Perfect Little Wonder og má hlusta á það hér fyrir neðan. Lagið fjallar um leitina af hinu fullkomna eða mest fullnægjandi lífi, en sú leit er að öllum líkindum efst á listanum hjá öllum, segja þeir Moskvítliðar.

Hljómsveitina Moskvít skipa sem fyrr þeir Sigurjón Óli Arndal Erlingsson, Alexander Örn Ingason, Jón Aron Lundberg og Valgarður Uni Arnarsson. Upptökur á laginu fóru fram hjá Kjartani Guðmundssyni í Dynur Recording Studio í Hveragerði og Sigurdór Guðmundsson í Skonrokk Studios sá um hljómjöfnun.

Í stuttu en opinskáu samtali við sunnlenska.is sögðu kapparnir í Moskvít að þeir væru spenntir fyrir helginni en þeir stíga á svið bæði á föstudags- og laugardagskvöld kl. 22:00.

„Við erum gjörsamlega að farast úr spenningi! Okkur þykir alltaf jafn skemmtilegt að fá að spila á Selfossi, okkar heimabæ. Fólk sem hefur hlustað á okkur mun heyra gamla slagara en að sjálfsögðu munum við einnig flytja þetta splunkunýja lag, sem er nú komið inn á allar helstu streymisveitur. Svo erum við með leynigest á Kótelettunni. Við segjum að sjálfsögðu ekki hver það er en hún vann það sem rímar við Söngheppni framhaldshjólanna,“ segja Moskvítmenn léttir að lokum.

Fyrri greinStyrktarsjóður Svanhildar með sölubás á Kótelettunni
Næsta greinEllefu vilja sveitarstjórastólinn á Klaustri