„Gjaldkerinn brosir alveg hringinn“

Uppsetning Leikfélags Selfoss á Þreki og tárum eftir Ólaf Hauk Símonarson hefur svo sannarlega slegið í gegn. Uppselt hefur verið á síðustu sýningar og hefur nú fimm aukasýningum verið bætt við.

„Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur. Það hefur verið meira og minna uppselt og núna er orðið nánast uppselt á næstu fimm sýningar og því bætum við aukasýningunum við,“ sagði Gerður H. Sigurðardóttir, gjaldkeri Leikfélags Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Fólk hefur verið mjög hrifið af sýningunni og finnst hún skemmtileg. Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur og skiptir okkur miklu máli að fá svona góð viðbrögð frá samfélaginu sem við störfum í. Leikfélagið á allt sitt undir jákvæðu viðmóti Sunnlendinga,“ segir Gerður. „Og gjaldkerinn brosir alveg hringinn þessa dagana enda uppsetningin kostnaðarsöm,“ bætir hún við á léttu nótunum.

Þrek og tár er m.a. þroskasaga ungs manns og kynnumst við honum, fjölskyldu hans og nágrönnum á gleðistundum sem og á verri stundum. Sögur persónanna fléttast saman, draugar fortíðar vakna og draumar framtíðar birtast. Það er bæði hlegið og grátið og allt þar á milli. Tónlistin í verkinu er landsmönnum vel kunn og setur punktinn yfir i-ið. Leikstjóri verksins er Lilja Nótt Þórarinsdóttir.

Uppselt er á þrjár næstu sýningar en örfá sæti laus 20. og 22. febrúar. Miðasala er hafin á aukasýningarnar sem búið er að áætla 24. febrúar til 8. mars.

Fyrri greinFimm gull á afmælismóti
Næsta greinSparkvöllurinn við Flóaskóla raflýstur