Gísli Freyr sigraði í Söngkeppni NFSu

Gísli Freyr og félagar hans í Slysh fagna sigri í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gísli Freyr Sigurðsson frá Hveragerði sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Gísli Freyr steig á stokk með hljómsveit sinni, Slysh, og flutti frumsamið lag, Ready Set Go. Kraftmikill söngur og frábær sviðsframkoma Gísla Freys heillaði bæði dómnefndina og salinn en atriðið var einnig valið frumlegasta atriði keppninnar.

Í 2. sæti nú varð Valdís Una Guðmannsdóttir frá Langholtskoti í Hrunamannahreppi sem flutti lag Valdimars, Yfir borgina, og í 3. sæti varð Ronja Lena Hafsteinsdóttir frá Selfossi með Abbalagið Andante Andante.

Söngkeppnin er einn af hápunktum félagslífsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands og keppist söngkeppnisnefndin við það að hafa kvöldið sem glæsilegast. Það gekk svo sannarlega eftir í kvöld en þema keppninnar var Rocketman. Tíu keppendur stigu á stokk í átta atriðum og var verkefni dómnefndarinnar mjög vandasamt.

Í dómarahléinu var boðið upp á frábær skemmtiatriði, hljómsveitin Koppafeiti spilaði en hún spilaði einnig lystilega undir hjá keppendum, Elísabet Björgvinsdóttir, sigurvegari síðasta árs flutti tvö lög og Patri!k Atlason Prettyboitjokko kynti vel upp í salnum.

Gísli Freyr flytur sigurlagið ásamt hljómsveitinni Slysh. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinLeikmaður ársins framlengir
Næsta greinYfir 60 keppendur á borðtennismóti á Hvolsvelli