Geymar og Flassbakk Sirru

Tvær nýjar sýningar verða opnaðar í Listasafni Árnesinga á morgun, laugardaginn 16. maí kl. 14. Þar sýnir Selfyssingurinn Sirra Sigrún Sigurðardóttir sýningarnar Geymar og Flassbakk.

Sýningin Geymar er hluti af dagskrá 29. Listahátíðar í Reykjavík 2015. Á sýningunni er gestum boðið að ganga inn í myndheim Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur sem sækir efniviðinn m.a. í tölulegar staðreyndir, vísindakenningar og rannsóknir. Hún hefur lengi velt fyrir sér stöðu listamannsins og listarinnar í samfélaginu. Á sýningunni má sjá hvernig hún vinnur með samfélagslegar skírskotanir og m.a. myndlistarverk sem sprottið er úr nærsamfélaginu.

Að auki vinnur hún sýninguna Flassbakk með verkum úr safneign safnsins, sem kalla fram endurminningar frá Selfossi þar sem hún ólst upp og safnið var fyrst staðsett.

Sirra hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London og er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi. Hún er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt margvíslegar sýningar og listviðburði með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna, sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega, sem listamenn er vert væri að fylgjast með á komandi árum.

Á íslenska safnadaginn, sunnudaginn 17. maí er gestum boðið að skoða tvær nýopnaðar sýningar í Listasafni Árnesinga og kl. 14 er einnig boðið upp á mjög forvitnilega listasmiðju fyrir áhugasama á öllum aldri með listamanninum Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur. Þar mun hún sýna gestum hvernig hún vinnur með skautunarfilmur og bjóða gestum að prófa, en eitt verka Sirru á sýningunni Geymar byggir m.a. á þeirri tækni.

Yfirskrift íslenska og alþjóðlega safnadagsins er söfn í þágu sjálfbærni. Markmiðið með deginum er að kynna og efla safnastarf á landinu og það er m.a. í anda sjálfbærni að þekkja, nýta og njóta þess sem í boði er í nærumhverfinu, skoða og skilja í stærra samhengi.

Sýningarnar Geymar og Flasbakk munu standa til og með 7. júlí.

Listasafn Árnesinga er nú oið samkvæmt sumardagskrá, alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur er ókeypis, líka þátttaka í listasmiðjunni og allir velkomnir.

Fyrri greinDagný gengin til liðs við Selfoss
Næsta grein„Úrslitin alveg grátleg“