„Getum lofað áhorfendum veislu!“

Sirrý Fjóla og félagar voru á fullu að setja upp skreytingar í Iðu þegar blaðamaður leit við í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands verður haldin í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi fimmtudaginn 3. nóvember. Eins og áður má búast við stórglæsilegri keppni með frábærri umgjörð.

„Flestir skólar halda undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna og það orð hefur farið af keppninni hjá okkur að hún hafi yfirburði þegar kemur að gæðum, skreytingum og skipulagi. Það sem gerir undankeppnina enn flottari er að við erum alltaf með eitthvað þema og þá eru grafíkin, skreytingarnar og skemmtiatriðin í þeim anda,“ segir Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri keppninnar, í samtali við sunnlenska.is.

Að þessu sinni er þemað Grease og hafa skipuleggjendur keppninnar lagt á sig mikla vinnu að undanförnu við að undirbúa keppnina og gera kvöldið sem glæsilegast.

„Þetta er engin smá vinna, en við getum líka lofað áhorfendum veislu! Það verða ellefu frábær atriði sem munu keppa til sigurs að þessu sinni, ásamt því að áhorfendur fá að sjá frábær skemmtiatriði, þar á meðal sigurvegarann í Söngkeppni framhaldsskólanna síðan í vor, þar Emilía Hugrún Lárusdóttir kom, sá og sigraði fyrir hönd FSu,“ segir Sirrý Fjóla ennfremur.

Miðasala á keppnina er hafin á nfsu.is en einnig verður hægt að kaupa miða í Iðu á fimmtudag, alveg fram að keppni. Það verður góðgæti í boði í sjoppunni á staðnum og skemmtunin hentar öllum aldurshópum.

Emilía Hugrún Lárusdóttir sigraði í fyrra og fór svo alla leið og sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSunnlendingar í æfingahóp A-landsliðsins
Næsta greinTomasz framlengir hjá Árborg