„Get ekki annað en þakkað öllum fyrir að trúa á þetta fyrirbæri“

Ólöf Sæmundsdóttir, listakona og eigandi Gallery Listasel. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í miðbæ Selfoss má finna lítið, fallegt listagallerí sem nefnist einfaldlega Gallery Listasel. Það má með sanni segja að Sunnlendingar og gestir Selfoss hafi tekið galleríinu vel síðan það opnaði í fyrrasumar.

„Ákvörðunin kom fljótlega eftir að ég flutti á Selfoss, fyrir rúmum fimm árum, um það leyti sem var verið að kjósa um miðbæinn. Ég kaus að sjálfsögðu með þessari frábæru hugmynd og sá tækifæri í að stofna gallerí,“ segir Ólöf Sæmundsdóttir, listakona og eigandi Gallery Listasel, í samtali við sunnlenska.is.

Viðtökurnar vonum framar
Í framhaldinu hafði Ólöf samband við forsvarsmenn miðbæjarins. „Mér var boðið að leigja þetta frábæra húsnæði sem er fremst þegar komið er af hringtorginu og ekki hægt annað en að taka slaginn, þar sem mér finnst mikilvægt að það sé starfandi gallerí, þar sem hægt er að kaupa íslenska listmuni. Viðtökurnar hafa verið vonum framar og ég get ekki annað en þakkað öllum gestum og viðskiptavinum mínum fyrir að trúa á þetta fyrirbæri og versla listmuni í heimabyggð,“ segir Ólöf, sem hefur langa reynslu af gallerírekstri á Skólavörðustígnum í Reykjavík.

Næsta ár fullbókað
Gallery Listasel leggur áherslu á listir og handverk og meirihluti listamannanna eru af af Suðurlandi. „Ég legg áherslu á að sem flestir listamenn fái að vera með sýningar og leigi út vegg-rými, mánuð í senn og er það mjög vinsælt og mikil aðsókn. Nú þegar er kominn langur biðlisti og er ég búin að bóka næsta ár að mestu. Þetta er mjög gaman og það er greinilega mikil þörf að fá að sýna og kynna list sína. Svo eru alltaf opnanir hver mánaðarmót sem er alltaf voða gaman og skapar líf í gallerýið og hvetur fólk að koma aftur og fylgjast með viðburðum,“ segir Ólöf og bætir því við hún sé núna komin með tvo sýningarveggi því að ásóknin var svo mikil meðal listamannanna.

Ólöf lauk stúdentsprófi frá listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti árið 2007 og lauk diplómanámi í leirlist frá Myndlistarskóla Reykjavíkur 2010. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt ýmsum samsýningum. „Ég vinn aðallega með leir en hef líka verið í glerlist. Ég fæ mest innblástur í verkum mínum í goðasögum og fornlist. Ég er meðlimur í Leirlistafélagi Íslands og er í félaginu Brennuvargar, sem er hópur leirlistamanna sem sérhæfir sig í frumstæðum útibrennslum. Ég er með vinnustofu í bílskúrnum mínum hér á Selfossi.“

Bandarískir ferðamenn stór kúnnahópur
Það eru ekki bara Íslendingar sem kunna að meta listaverkin í Gallery Listasel. „Erlendum ferðamönnum er alltaf að fjölga en þeir kaupa frekar minni hluti en stundum kaupa þeir stærri verk og þá sendi ég þeim verkin í pósti. Flestir ferðamennirnir eru bandarískir og þeir versla mest en svo koma þeir víða að, til dæmis frá Bretlandi og Danmörku.“

Ólöf segir að aldur viðskiptavina sé algjörlega óviðkomandi þegar kemur að áhuga á listum en konur eru þó oftast duglegri að versla en karlar. „Viðhorf fólks til listar er að opnast meira og fólk er áhugasamara og spenntara yfir því sem ég hef uppá að bjóða.“

„Gallery Listasel er bara að vaxa og dafna og vonandi að gera gott og auka fjölbreytileika menningar fyrir samfélagið á Selfossi og Suðurlandið. Allt er þetta atvinnuskapandi og eflir listafólkið. Eitt leiðir af öðru, sem er ómetanlegt að mínu mati – það að efla menningu og listir á svæðinu,“ segir Ólöf að lokum.

Fyrri grein„Jólahefðir mega vera alls konar“
Næsta greinJólatónleikar í Skálholtsdómkirkju