Garðyrkjuráðunautur semur sjómannalag

Lag Steins Kárasonar, „Fiskibátur“, er komið í úrslit í sjómannalagakeppni Rásar 2.

Steinn bjó lengi í Hveragerði og starfaði sem garðyrkjuráðunautur hjá SASS og Búnaðarsambandi Suðurlands auk þess sem hann kenndi við Garðyrkjuskólann á Reykjum.

Lagið syngur ofursjarmurinn Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm en hún söng m.a. í forkeppni Eurovision í fyrra. Það er Bjargráðaband Steins sem leikur undir.

Úrslitin í keppninni verða kunngjörð í Popplandi nk. föstudag en hægt er að hlusta á lögin og kjósa hér.

Sigurlagið verður svo flutt á Hátíð hafsins á Grandagarði, sjómannadagshelgina 5.-6. júní, og mun væntanlega hljóma ótt og títt í útvarpi allra landsmanna í allt sumar.

Annars er Steinn með tólf laga hljómplötu í smíðum og kemur hún út um miðjan júní. Meðal söngvara á plötunni, auk Steins, eru Páll Rósinkrans, Hreindís Ylva og Guðmundur Benediktsson í Mánum.