Gamlir sjónvarpsþættir sýndir í Héró

Í kvöld kl. 20:30 verður kvöldvaka í gamla Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem sýndir verða sjónvarpsþættir frá frumbýlisárum Ríkissjónvarpsins, sem fjalla um mennta- og menningarsetrið Laugarvatn.

Kvöldvakan er haldin í samstarfi við Upplit, menningarklasa Uppsveita Árnessýslu og Héraðsskólann ehf.

Kvöldvakan er öllum opin meðan húsrúm leyfir, húsráðendur selja léttar veitingar, en fyrirtækið Héraðsskólinn ehf. leigir gamla héraðsskólahúsið af ríkinu og rekur þar gistiheimili og veitingasölu þar sem m.a. er lögð áhersla á sögu hússins og skólastarf þar. Gamlir munir og húsgögn hafa fengið endurnýjun lífdaga í þessu glæsilega húsi og er vel við hæfi að rifja upp skólastarf á árum áður á Laugarvatni í því umhverfi.

Menntaskólinn að Laugarvatni fagnar 60 ára stofnafmæli sínu á þessu ári, en skólinn var stofnaður 12. apríl 1953. Margir viðburðir hafa verið á árinu tengdir þessum tímamótum í sögu skólans og er þetta einn þeirra. Menntaskólinn hefur í gegnum tíðina eignast afrit margra sjónvarpsþátta sem fjalla sérstaklega um skólastarf á Laugarvatni.

Fyrri greinMakalaus sambúð frumsýnd í kvöld
Næsta greinReyndi að lokka barn inn í bíl