Gamalt og nýtt frá Hljómsveit Stefáns P.

Út er kominn nýr hljómdiskur með Hljómsveit Stefáns P. sem ber heitið „Flottur Kallinn“. Á honum eru átján lög, þar af tólf sem voru hljóðrituð á árunum 1983 til 1985.

Á þessum árum skipuðu hljómsveitina auk Stefáns P. þeir Ólafur Bachmann trommuleikari og Sigurður Björgvinsson bassaleiki. Af þessum átján lögum voru tíu lög gefin út á hljóðsnældu árið 1985 í takmörkuðu upplagi og hins vegar eru tvö lög eftir Bjartmar Guðlaugsson af lítilli vinyl plötu sem Ágúst Stefánsson frá Vestmannaeyjum söng við undirleik hljómsveitarinnar og var eingöngu gefin út í Vestmannaeyjum.

Nú hafa þessi lög verið yfirfærð á hljómdisk ásamt sex nýuppteknum lögum sem þeir félagar bættu við í anda þess er var þegar þeir störfuðu saman. Tvö þessara laga hafa komið út í flutningi hljómsveitarinnar á Eyjadiskunum „Í dalnum“ og „Í brekkunni“ þ.e. „Út í Elliðaey“ og „Nú meikarðu það Gústi“. Eitt laganna af hljóðsnældunni, „Haba Haba“, var á vinsældarlista Rásar tvö árið 1985 í nokkrar vikur.

Hljómsveit Stefáns P. var skipuð þeim Stefáni P., Ólafi og Sigurði á árunum 1981-1986 og léku þeir félagar um allt land á sveitaböllum og einkadansleikjum. Þó voru Suðurlandið og Suðurnesin þeirra aðal markaðssvæði. Þeir léku fyrir íslendinga í Ameríku þrjú ár í röð – árin 1984 – 1986, þrisvar léku þeir á Þjóðhátið í Vestmannaeyjum ásamt fleiri útihátíðum víða um land – Kántríhátíð og Klausturshátíðum svo eitthvað sé nefnt.

Diskurinn er fáanlegur hjá N1 og Eymundson. Einnig er hægt að panta diskinn á Fésbókarsíðu hljómsveitarinnar.

Fyrri greinSpjallfundur fyrir foreldra barna með ADHD
Næsta greinÞór úr leik í Lengjubikarnum