Gæðadjass í Versölum

Fimmtudagskvöldið 9.júlí verða haldnir jazz tónleikar í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn. Fram koma tríóið Skarkali og kvartettinn Aurora

Báðar hljómsveitirnar eru skipaðar nokkrum af efnilegustu jazztónlistarmönnum Íslands.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa yfir í um það bil tvær klukkustundir með stuttu hléi. Aðgangseyrir er einungis 1.500 kr. og fer miðasala fram við dyrnar, kortaposi verður á staðnum.

Skarkali tríó mun í sumar gefa út sína fyrstu plötu. Að flutningi loknum gefst tónleikagestum kostur á að kaupa plötuna á sérstöku tónleikaverði.

Tríóið skipa þeir Ingi Bjarni Skúlason, píanó, Valdimar Olgeirsson, kontrabassi og Óskar Kjartansson, trommur. Skarkali hefur tvisvar komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur auk þess sem tríóið tók þátt fyrir Íslands hönd í Young Nordic Jazz Comets árið 2013 í Noregi. Sumarið 2014 ferðaðist tríóið til Færeyja og spilaði þar á fjórum tónleikum sem voru hluti af tónleikaröðinni Summartónar.

Aurora Kvartett skipa þeir Helgi Rúnar Heiðarsson, tenór saxófónn, Tómas Jónsson, píanó, Sigmar Þór Matthíasson, kontrabassi og Óskar Kjartansson, trommur.

Hljómsveitin Aurora er jazz kvartett stofnaður af Sigmari Þór á vormánuðum 2014. Hljómsveitin fór fyrir Íslands hönd til Helsinki í Finnlandi síðastliðið haust og tók þar þátt í hinni árlegu norrænu ungliða jazz keppni/hátíð „Young Nordic Jazz Comets“. Á hátíðinni koma fram norrænar hljómsveitir sem skipaðar eru efnilegustu jazzleikurum Skandinavíu. Auk þess kom Aurora fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2014 og á tónleikum á vegum Jazzklúbbsins Múlans í maí 2015 við góðan orðstíl. Aurora verður iðin við tónleikahald í sumar en fyrsta plata sveitarinnar er í undirbúningi og verður hljóðrituð síðla sumars.

Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru útskrifaðir úr Tónlistarskóla FÍH og hafa þegar getið sér gott orð á tónleikasviðum bæði hér heima og erlendis. Aurora leikur frumsamdar tónsmíðar meðlimanna, kraftmikla tónlist sem einkennist af litríkum laglínum, fjölbreyttum rhythma en fyrst og fremst mikilli spilagleði. Nafn hljómsveitarinnar má rekja til hinna íslensku norðurljósa sem eru, líkt og tónlist Áróru, litrík og óútreiknanleg.

Fyrri greinGuðjón Bjarni stýrir Sumar á Selfossi
Næsta greinHljómeyki og Elfa Rún í Skálholti