Fyrsti sigur FSu í 32 ár

Emilía Hugrún með verðlaunagripinn eftir keppnina í kvöld. Ljósmynd/Íris Ellertsdóttir

Emilía Hugrún Lárusdóttir, keppandi Fjölbrautaskóla Suðurlands, sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna, sem haldin var í íþróttahúsinu á Húsavík í kvöld.

Emilía Hugrún söng hið klassíska sálarlag I’d Rather Go Blind sem Etta James gerði vinsælt á sínum tíma. Eins og í undankeppninni hjá FSu lagði Emilía Hugrún svo sannarlega allt sitt í flutninginn og hreif hug og hjörtu dómnefndar og áhorfenda. Keppnin var í beinni á RÚV2 og gilti símakosning á móts við álit dómnefndar.

Söngkonan unga frá Þorlákshöfn var ekki ein á sviðinu því frábær hljómsveit úr fjölbrautaskólanum lék undir hjá henni í kvöld, eins og í undankeppninni.

Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1990, þegar fyrsta keppnin var haldin, sem Fjölbrautaskóli Suðurlands sigrar í keppninni. Þá sigraði Rangæingurinn Lárus Ingi Magnússon. Söngkeppnin hefur oft verið stökkpallur fyrir íslenskt tónlistarfólk og sem dæmi má nefna að Lárus sló þeim Móeiði Júníusdóttur og Páli Óskari Hjálmtýssyni ref fyrir rass, en þau urðu í 2. og 3. sæti.

Emilía Hugrún ásamt hljómsveitinni eftir keppni. Ljósmynd/RÚV

Góð í að gera tilbúinn grjónagraut betri

Fyrri greinSelfoss-U lokaði tímabilinu laglega
Næsta greinMeð fíkniefni í formi hlaupbangsa og súkkulaðis