Fyrsta plata Steins komin út

„Steinn úr djúpinu“, tólf laga geislaplata Steins Kárasonar, kom út í gær, á þjóðhátíðardaginn.

Öll lögin eru eftir Stein og flestir textarnir. Söngvarar auk Steins eru Páll Rósinkrans, Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, Íris Guðmundsdóttir, Haukur Hauksson og Guðmundur Benediktsson í Mánum. Bakraddir syngur Ingi Gunnar Jóhannsson.

Einvalalið kemur að hljóðfæraleik á plötunni og má þar nefnda Sigurgeir Sigmundsson á gítar, Jón Ólafsson á bassa og á Stradivarius-fiðlu leikur Hjörleifur Valsson.

Að sögn Steins er tónlistin á plötunni fjölbreytt melódísk dægurtónlist, rokk/graðhestarokk/ballöður og popp, sumt country-skotið eða daður við léttklassik.

Þetta er fyrsta plata Steins og gefur hann plötuna út sjálfur og annast dreifingu hennar.

Steinn bjó lengi í Hveragerði og starfaði sem garðyrkjuráðunautur hjá SASS og Búnaðarsambandi Suðurlands auk þess sem hann kenndi við Garðyrkjuskólann á Reykjum.