Fyrsta lag Önnu Hansen komið á Spotify

Söngkonan Anna Hansen frá Leirubakka í Landsveit sendi nýverið frá sér sitt fyrsta lag. Lagið nefnist Grace og er aðgengilegt á Spotify og á Youtube hér að ofan.

„Ég er búin að vera á leiðinni að gefa út mína eigin tónlist lengi og var með nokkur demo klár fyrir dálitlu síðan, sem ég svo frestaði útgáfu á. Núna var þetta lag tilbúið, og mér fannst það alveg fullkomið fyrir mig,“ segir Anna í samtali við sunnlenska.is.

Anna segir að lagið hafi orðið til í samvinnu við lagahöfundin Stefan Mørk og upptökustjórann Lars Andresen. „Ég hef unnið mikið með þeim báðum við mismunandi verkefni, bæði í stúdíó og „live“,“ segir Anna.

Hún er lærð söngkona og lærði bæði heima á Íslandi og í Danmörku. Anna hefur starfað sem söngkona og söngkennari síðan 2014. Hún hefur einnig sungið mikið í brúðkaupum, afmælisveislum og fleiri viðburðum í Danmörku og hefur auk þess verið að syngja bakraddir og demo fyrir aðra. Þess má geta að hún komst í 32 manna úrslit í danska tónlistarþættinum Voice árið 2012.

Anna á sviðinu á The Local í Nashville. Ljósmynd/Aðsend

Söng tvö lög fyrir Netflix þátt
Aðspurð hvort við eigum von á fleiri lögum frá henni á næstunni segir Anna svarið vera stórt já. „Stefnan er að gefa út að minnsta kosti tvö lög í viðbót á næstu misserum og ég er á fullu að vinna í nýrri tónlist þessa dagana.“

„Núna síðast samdi ég texta og söng inn tvö lög fyrir nýjan skandinavískan Netflix þátt sem heitir Ragnarok, þar sem Gísli Örn Garðarsson er í stóru hlutverki,“ segir Anna.

Það er nóg að gera hjá Önnu þessa dagana. „Ég fór út til Nashville í síðustu viku, bæði til að kynna lagið, þar sem Nashville er „mekka“ countrytónlistarinnar og til þess að koma fram á nokkrum „Songwriters round“, semja lög með fólki þar og almennt vinna í tengslanetinu og kynnast fleirum.“

Á leiðinni í stúdíó í Tælandi
„Núna er ég svo í flugvél á leið þaðan til Bangkok í Tælandi, þar sem ég verð í 4-5 daga að semja lög og taka upp í stúdíói þar. Listamaðurinn sem réð mig til þess, og við erum að fara að semja fyrir, er frá Ísrael og pródúserinn hans frá Bandaríkjunum. Ég var ráðin inn með þeim um daginn í Kaupmannahöfn í gegnum fólk sem ég þekki þar, og þeim líkaði svo vel við mig að þeir buðu mér að koma þangað. Þeir leigðu mjög flott og stórt stúdíó rétt við Bangkok sem er í eigu fjögurra upptökustjóra frá Bretlandi, og við búum á staðnum þar sem eru lúxushótelherbergi, veitingastaður og sundlaug, þannig þetta verður blanda af vinnu og fríi,“ segir Anna glöð í bragði.

Fyrri greinAllir komnir með rafmagn aftur
Næsta greinÖruggur sigur Selfyssinga