Fyrri forkeppni Uppsveita-stjörnunnar í dag

Fjölmörg atriði eru nú þegar skráð til leiks í Uppsveitastjörnunni, hæfileikakeppni Upplits, en fyrri forkeppnin verður haldin í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi í dag kl. 15-17.

Á meðal keppenda eru trúður, trommuleikari, söngvarar og fleira tónlistarfólk, sem mun etja kappi um að komast áfram í úrslit. Dómnefnd velur 2-4 atriði sem halda áfram og keppa til úrslita í mars á næsta ári. Frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar atriði eru valin í úrslit. Veitt eru verðlaun og allir þátttakendur fá auk þess viðurkenningu.

Uppsveitafólk og aðrir gestir eru hvattir til að mæta og fylgjast með góðri skemmtun og hvetja sínar stjörnur áfram. Boðið er upp á hæfileikaríka keppendur, góðar veitingar, skemmtilega dómnefnd og fyrirtaks stemmningu.

Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur og veitingar verða til sölu við vægu verði.

Menningarráð Suðurlands styður Uppsveitastjörnuna – og einnig sveitarfélögin í uppsveitunum, sem leggja til félagsheimilin fyrir keppnirnar.

Fyrri greinNýr skemmtistaður rís á rústum 800
Næsta greinÁrborg fær menningarsalinn