Fyrra bindi ævisögu Sigurðar dýralæknis

Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út fyrra bindi af ævisögu Sigurðar Sigurðarsonar, sem löngum hefur verið kenndur við Keldur á Rangárvöllum, og ber hún heitið Sigurður dýralæknir.

Sigurður dýralæknir, sem var um skeið yfirdýralæknir, er löngu landskunnur fyrir störf sín. Ekki er hann síður þekktur fyrir kveðskap sinn og kvæðalög og óborganlegar sögur af mönnum og málefnum.

Í Sigurðar sögu dýralæknis segir af uppvexti hans á Sigurðarstöðum í Bárðardal, Keldum á Rangárvöllum, Selalæk og Hemlu. Sagt er frá námsárum á Héraðskólanum í Skógum og í Menntaskólanum á Akureyri, daglaunavinnu sem pakkhúskarl á Rauðalæk og slátrari á Hellu svo að nokkuð sé nefnt. Sagt er frá mönnum og málleysingjum sem orðið hafa á vegi hans, skrýtnum og skemmtilegum karakterum, eins og hann er sjálfur, kyndugum körlum og kerlingum, bændum og búaliði, prestum og kvenleysingjum, kvenna- og kvæðamönnum víða um land.

Við sögu koma, meðal annarra, Halla eldakona á Keldum, Gvendur dúllari og nafni hans kíkir, Elli garnameistari, Manga gamla í Hemlu, „Kláða-Hreinn”, “Nossflónur Rufaló”, Guðrún ljósmóðir á Reyðarvatni, Árni „glukk”, Jón og séra Jón auk ótal margra annarra sérstæðra persónuleika.

Hér segir m.a. af hlöðunni sem var dregin yfir heyið, „fraginu í Vitlausahverfi“, reimleikum á Rauðalæk, ófúnu líki í kirkjugarðinum á Keldum, íhaldskoppinum og úthrópuðum rottuskítssala á Landi og í Holtum!

Gunnar Finnsson, fyrrum skólastjóri á Borgarfirði eystra og víðar, hefur haldið utan um skrif Sigurðar. Það fer líka vel á því að þeir frændur, hann og Sigurður dýralæknir, leggist hér á eitt, enda báðir annálaðir sagnamenn og miklir gleðimenn. Sér þess merki víða í bókinni.

Fyrri greinGuðmundur greiði 76 milljónir
Næsta greinGóður Njálulestur