Fyrirlestur um yfirskilvitleg öfl í Njálu

Í dag kl. 17 flytur dr. Ármann Jakobsson prófessor erindi í Sögusetrinu á Hvolsvelli sem hann nefnir „Þessa heims og annars“ – Yfirskilvitleg öfl í Brennu-Njáls sögu eða: Hvað sá Hildiglúmur?

Brennu-Njáls saga er einhver magnaðasti og auðugasti bókmenntatexti Íslandssögunnar og raunar heimsbókmenntanna. Hún er ekki aðeins áleitin frásögn af harðsvíruðu valdapoti og misheppnuðum hjónaböndum heldur geymir hún einhverja áhugaverðustu frásögn 13. aldar frá trúskiptunum við árþúsundamótin 1000.

Sagan hefst á álögum Gunnhildar drottningar og snemma þarf Hallgerður langbrók stuðning göldrótts frænda en í sögulok rignir blóði og drengir á Skeiðum sjá gandreiðir. Hvers konar sagnfræði er hér á ferð og hver er staða handanheimsins í skynjun 13. aldar manna?

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Hann hefur sent frá sér bækur og vísindagreinar í tólf löndum og meðal annars ritað skáldsögur þar sem tekist er á við sagnaarfinn.

Fyrri greinSpjallað um Nútímakonur
Næsta greinSirkus Íslands á Selfossi í sumar