„Fyrir alla sem hafa gaman af því að hlæja“

(F.v.) Skúli, Björn, Unnur Birna og Sigurgeir Skafti. Ljósmynd/Aðsend

Fimmtudagskvöldið 5. desember verða jólatónleikar með Heru Björk, Unni Birnu og hljómsveit Bjössa Thor á Hótel Selfossi.

Unnur Birna og Björn Thoroddsen ásamt hljómsveit hafa spilað víðsvegar um landið á árinu við mikinn fögnuð nær og fjar-staddra. Þau ætla að slá botninn í árið með smá jólagleði á fáum útvöldum stöðum.

„Við spilum svo mikið saman að okkur langaði að taka eitt gigg í desember og spila uppáhalds jólalögin okkar (og ójólalög) í nýjum útgáfum og fá með okkur gest, Heru Björk. Þau Bjössi hafa líka spilað mikið saman svo það er gaman að sameinast öll,“ segir Unnur Birna Bassadóttir í samtali við sunnlenska.is.

Hera og Unnur voru báðar í Frostrósum þegar sú tónleikaröð var og hét og eru því þaulreyndar þegar kemur að því að skemmta landanum yfir hátíðarnar. Hera hefur einnig staðið fyrir sinni eigin jólatónleikaröð Ilmur af jólum þar sem var uppselt á nær alla tónleika um síðastliðin jól.

„Við spilum allt milli himins og jarðar, popp, rokkaðan blús, swing, írska fiðlusyrpu sem fær okkur öll til að svitna, svo leikur Hera listir sínar og syngur bókstaflega alla stíla. Hún er mjög sannfærandi sem klassískur tenór og rokkari!“ segir Unnur.

Með þeim leika sunnlenska rhytma-parið Skúli Gíslason á trommur og Sigurgeir Skafti Flosason á bassa.

„Þessir tónleikar eru fyrir alla sem elska góða tónlist og hafa gaman af því að hlæja og vilja kíkja á glæsilega ótýpíska tónleika fyrir jólin með mjög færum hljóðfæraleikurum,“ segir Unnur að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinHamar marði Sindra – Selfyssingar töpuðu
Næsta greinEnginn samdráttur á Selfossi