„Fundum það strax að þetta gæti orðið eitthvað“

Hljómsveitin Lón ásamt söngkonunni Rakel. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin Lón, með söngvarann Valdimar Guðmundsson í broddi fylkingar, mun gera víðreist um landið á aðventunni ásamt söngkonunni Rakel. Hljómsveitin mun spila í kirkjum víða um land og fylgja þar með eftir útgáfu á nýrri jólaplötu, sem nefnist Fimm mínútur í jól.

„Þessi plata varð til uppúr samnefndum sjónvarpsþætti sem er kominn á VOD-ið núna hjá Sjónvarpi símans. Við tókum þáttinn upp í mars, ef ég man rétt, stemningin var góð og við fundum það strax að þetta gæti orðið eitthvað, þannig að við urðum að nýta þetta meira,“ segir Valdimar í samtali við sunnlenska.is.

„Við spiluðum á Airwaves um daginn, reyndar ekki jólalög, en þeir tónleikar voru í Fríkirkjunni. Það var ofboðslega hentug staðsetning og hentaði músíkinni vel. Þannig að við ákváðum að rúnta um landið og spila jólalögin í hinum ýmsu kirkjum. Þetta verður notalegur fílíngur, við erum mikið að vinna með tvo kassagítara saman, Ásgeir og Ómar grípa reyndar í hin ýmsu hljóðfæri og svo er það söngur frá mér og Rakel,“ segir Valdimar ennfremur.

Meðbyr og jákvæð skilaboð
Platan Fimm mínútur í jól lenti á streymisveitum í lok nóvember og fékk strax mjög góðar viðtökur. Valdimar er ánægður með viðbrögðin.

„Já, ég er himinlifandi með hvað fólk er að taka vel í þetta. Við höfum fengið meðbyr og mikið af jákvæðum skilaboðum. Fólk er greinilega til í svona tónlist fyrir þessi jól, það er hægt að hlusta á þetta yfir smákökubakstrinum og þegar fólk vill hafa það kósý heima. Það eru bæði íslensk og erlend lög á plötunni sem allir ættu að þekkja, við völdum lögin í sameiningu en fyrir mitt leiti þá fannst mér gaman að taka eitthvað af þessum lögum sem eru mjög þekkt en fólk þekkir kannski ekki í þessari stemningu. Til dæmis ítölsku jólalögin og svo eru þarna íslenskar perlur eftir Magga Eiríks og Gunna Þórðar og Ingibjörgu Þorbergs.“

En hvernig er það með tónlistarmenn? Ná þeir að undirbúa jólin með því að taka tónleikaferð fimm mínútur í jól?

„Já,“ segir Valdimar og hlær. „Það er ýmislegt sem ég á eftir að gera núna en blessunarlega á ég kærustu sem sér um margt þannig að ég slepp betur en margir aðrir. En það kemur að því að ég geri mitt og það verður bara gaman,“ segir Valdimar að lokum.

Fyrstu tónleikarnir verða á morgun, fimmtudag, á Siglufirði og síðan verður haldið áfram um Norður- og Austurland. Mánudaginn 12. desember verða tónleikar í Víkurkirkju í Mýrdal, miðvikudaginn 14. desember í Selfosskirkju og fimmtudaginn 15. desember í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn.

Fyrri grein„Best of the best“ á Lemon míní
Næsta greinHornleikarinn sem kennir myndlist á daginn og hannar óróa á kvöldin