Fundað í Fjölni og leikir barna

Hundrað ára gömul sýslunefnd og leikir barna verða viðfangsefni tveggja sýninga sem opna á söfnunum á Eyrarbakka á menningarhátíðinni Vor í Árborg í kvöld og á morgun.

Sýningin Fundað í Fjölni verður opnuð á föstudagskvöldið 13. maí kl. 18.00 í Húsinu, Byggðasafni Árnesinga. Á sýningunni verður elsta ljósmynd sem til er af Sýslunefnd Árnesinga og er frá árinu 1911 krufin til mergjar. Gægst verður inn í veröld þessara virðulegu skeggaðra manna sem birtast okkur í gamalli snjáðri ljósmynd. Á meðal þeirra er sr. Valdimar Briem á Stóra-Núpi og þrír aðrir prestar en flestir voru sýslufulltrúarnir bændur og hreppstjórar. Við opnun sýningarinnar syngur Kolbrún Huld Tryggvadóttir söngkona frá Stokkseyri.

Í Sjóminjasafninu verður á laugardaginn opnuð ljósmyndasýningin Allir í leik sem sýnir brot af leikjum barna í Árnessýslu á liðinni öld. Þennan dag verða börn í forgrunni, ratleikur verður um safnasvæðið, hægt verður að kaupa far með kassabíl og ýmsar nýjungar kynntar.

Sunnudagurinn hefst í Húsinu með morgunkaffi í félagskap eldri borgara. Síðar um daginn mæta hjónin úr Brennu, Súsanna og Þór ásamt vinum, og spila vorið inn í hjörtu gesta.

Frítt er í bæði söfnin á Vor í Árborg. Almennur opnunartími safnanna er kl. 11-18 alla daga fram til 15. september. www.husid.com.