Frumsýning á Selfossi í kvöld

Leikfélag Selfoss frumsýnir í kvöld leikritið Sólarferð eftir Guðmund Steinsson.

Leikritið gerist á miðjum áttunda áratug síðustu aldar og fjallar um ferð nokkurra íslenskra hjóna til Costa del Sol. Þar dregur höfundur upp stórskemmtilega mynd af sólarlandaferðum Íslendinga, en lýsingar hans eiga ekki síður við í dag en þegar verkið var skrifað.

Afkomendur víkinganna þyrstir nú í að njóta lífsins lystisemda á þessum heita, framandi stað, þar sem allt flóir í ódýru áfengi og boð og bönn hins venjubundna lífs eru víðs fjarri.

Leit ferðafélaganna að lífshamingju í þessu „himnaríki holdsins“ birtist okkur á bráðfyndinn hátt, en undir niðri kraumar sársauki sem erfitt er að leyna.

Átta leikarar taka þátt í sýningunni en alls kemur á þriðja tug félagsmanna að sýningunni á einn eða annan hátt. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

Guðmundur Steinsson var fæddur á Eyrarbakka árið 1925 og er meðal fremstu leikskálda Íslands. Sólarferð, sem er eitt hans vinsælasta verk, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1976 og sett aftur á svið árið 2008.