Frú Vigdís tók við fyrsta eintakinu

Stefán Björn Stephensen afhenti Vigdísi fyrsta eintakið af bókinni. Ljósmynd/Ólafur Stephensen

Út er komin ævisagan „Stefán sterki, myndbrot úr mannsævi“. Höfundur og útgefandi er Þórir Stephensen fyrrverandi dómkirkjuprestur en Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi annaðist faglegan frágang og sér um dreifingu.

Fyrsta eintak bókarinnar var afhent frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands í dag en það var hinn ungi Stefánungur Stefán Björn Stephensen sem afhenti. Hann er sonarsonur höfundar og fjórði maður frá Stefáni sterka.

Í tilefni af útgáfunni er efnt til útgáfuhófs í Safnaðarheimili Neskirkju í Reykjavík miðvikudaginn 21. nóvember kl. 17-19. Þann dag eru 160 ár liðin frá prestsvígslu séra Stefáns. Í hófinu syngur Dagbjört Andrésdóttir, barnabarn sr. Þóris, þrjú lög við undirleik Kára Þormars dómorganista. Höfundur les úr bók sinni. Kaffi, kandís og kleinur í boði og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Litríkur prestur á Mosfelli í Grímsnesi
Myndbrot úr mannsævi fjallar um hinn litríka prest, Stefán sterka Stephensen (1832-1922) sem kenndur er við Mosfell í Grímsnesi þar sem hann þjónaði síðustu ár starfsævinnar. Stefán var einarður hugsjónamaður, dugnaðarforkur og slíkur kraftamaður að sögur af afrekum hans urðu landsþekktar. En um leið breyskur drykkjumaður.

Þau hjónin, Stefán og kona hans Sigríður Gísladóttir frá Kálfholti bjuggu við rausn og höfðingsbrag en mættu líka á langri ævi erfiðum sorgum í einkalífi þar sem þau máttu sjá á bak átta af tólf börnum sínum, þar af þremur í sömu gröf. Fjögur komust til fullorðinsára og urðu þrjár dætur þeirra bændur á Suðurlandi.

Stefán var sonarsonur Stefáns Stephensen amtmanns og náskyldur landsþekktum valdamönnum 19. aldar. Um leið og hér er rakin lífssaga sveitaprests fáum við innsýn í stórfenglega ættarsögu sem spannar meira en bara sveitir í Árnessýslu. Sjálfur fór Stefán ungur úr föðurhúsum á Kálfafelli í Fljótshverfi til uppeldis á Ytri-Hólmi í Innri-Akraneshreppi. Þar bjó þá föðurbróðir hans, þjóðskörungurinn Hannes Stephensen, sem var einn af nánstu samverkamönnum Jóns Sigurðssonar forseta.

Höfundur bókarinnar, Þórir Stephensen fyrrverandi dómkirkjuprestur, er sonarsonur Stefáns sterka. Í líflegri og ítarlegri frásögn kynnumst við framfaraviðleitni prestsins og ofsafengnum baráttuanda sem gat einnig beinst þvert á það sem flestir töldu þá til framfara. Sagan er sögð af hlutleysi og virðingu fyrir jafnt staðreyndum og sögupersónum.

Myndbrot úr mannsævi er áhugaverð frásögn og um leið innlegg í þjóðarsögu þar sem við kynnumst löngu liðnu bændasamfélagi á umbrotatíma.

Fyrri greinDramatískt jafntefli á Selfossi
Næsta greinAtvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur