Frostrósir loksins á Selfossi

Frostrósatónleikarnir vinsælu, sem haldnir hafa verið víða um land undanfarin níu ár, verða nú haldnir á Selfossi í fyrsta sinn, nánar tiltekið í Selfosskirkju.

Fyrir skemmstu var tilkynnt hvaða listamenn koma fram á tónleikunum að þessu sinni og er óhætt að segja að sannkallað stórskotalið sé þar samankomið. Söngvararnir í ár eru Garðar Thór Cortes, Jóhann Friðgeir, Hera Björk, Friðrik Ómar, Regína Ósk og Ragnheiður Gröndal.

Karl Olgeirsson er tónlistarstjóri sem fyrr og hefur veg og vanda af útsetningum. Þetta er í fyrsta sinn sem Frostrósirnar heimsækja Selfoss en tónleikaröðin hefur á undanförnum árum verið fjölsóttasti tónlistarviðburður landsins. Alls sóttu 22 þúsund gestir tónleikana á síðasta ári og í heild eru gestir orðnir yfir 70 þúsund frá upphafi.

Miðasala á alla Frostrósatónleikana hefst miðvikudaginn 20. október en sérstök forsala hefst 19. október fyrir þá sem hafa skráð sig á póstlista á vefnum www.frostrosir.is eða á facebook síðu Frostrósa, http://www.facebook.com/frostrosir.

Frostrósatónleikar verða haldnir á tólf stöðum, vítt og breitt um landið í desember.

Fyrri greinNakinn maður á Selfossi í kvöld
Næsta greinStarfsmannafélagið skorar á stjórnvöld