Frostrósir bæta við miðnætur-tónleikum

Frostrósatónleikarnir sem haldnir verða í fyrsta sinn á Selfossi þann 3. desember nk. hafa fengið frábærar viðtökur hjá Sunnlendingum.

Uppselt var á tónleikana örfáum klukkustundum eftir að sala hófst á þá og því var bætt við aukatónleikum sem sömuleiðis seldist jafnharðan upp á. Nú hefur verið bætt við miðnæturtónleikum í Selfosskirkju sem hefjast kl. 23:30 og er miðasala hafin á midi.is.

Ekkert lát er á eftirspurn eftir miðum á Frostrósir um allt land. Í níu ára sögu Frostrósa hafa aldrei jafn margir miðar selst á svo skömmum tíma jafnvel þó tónleikarnir hafi verið þeir vinsælustu á Íslandi síðastliðin ár.

Fjöldi Íslendinga sækir sér jólaskapið og gæsahúð á Frostrósir ár eftir ár og í fyrra voru tónleikagestir ríflega 22 þúsund. Glæsileg umgjörð og einstakur hátíðleiki þeirra hefur skapað sér sess sem ómissandi liður í aðdraganda jólahátíðarinnar.

Flytjendur í tónleikaferð um landið eru: Hera Björk, Ragnheiður Gröndal og Regína Ósk, Friðrik Ómar, Garðar Thór Cortes og Jóhann Friðgeir.

Fyrri greinÞjónusta við fatlaða í sveitarfélögum – Líklega fínt, líklega slæmt…
Næsta greinSafnahelgin: Fjölbreytt dagskrá í Árborg