Fróðleg sýning í Hveragerði

Sýningin Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin var opnuð í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk um síðustu helgi.

Það er nýstofnað Listvinafélag Hveragerðis sem á heiðurinn af sýningunni en þau nutu liðsinnis Guðrúnar Tryggvadóttur sem hannaði og setti upp sýninguna.

Á sýningunni er leitast er við að draga upp mynd af tilurð skáldanýlendunnar í Hveragerði upp úr 1940 þar sem sex einstaklingar voru kannski mest áberandi. Nútíminn kallast skemmtilega á við fortíðina en nokkrir valinkunnir Hvergerðingar fjalla um skáldin á sýningunni og velja brot úr verkum þeirra.

Reynt er að varpa ljósi á hvað varð til þess að svo mörg skáld fluttu til Hveragerðis upp úr 1940 og hvernig fjölskyldur þeirra bjuggu á þessum tíma. Skáldin og verk þeirra eru síðan tekin sérstaklega fyrir og lífsverki þeirra gerð skil. Skáldin sem fluttu til Hveragerðis hernámsárið 1940 og næstu árin á eftir eygðu von um betri og hagkvæmari kjör og aðbúnað en þau lifðu við á kreppuárunum fyrir stríð. Fréttir bárust um ódýra hitun í húsum og að matseld færi jafnvel fram í hverunum sjálfum.

Fyrstir fluttu Jóhannes úr Kötlum með fjölskyldu sína í október 1940 og Kristmann Guðmundsson í febrúar 1941. Báðar fjölskyldurnar höfðu misst húsnæði sitt í Reykjavík. Önnur skáld sem tekin eru sérstaklega fyrir á sýningunni eru Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir, séra Helgi Sveinsson og Kristján frá Djúpalæk.

Gert er ráð fyrir að sýningin verði næsta árið í Verslunarmiðstöðinni en eftir það fari hún jafnvel á flakk um landið.