Fróðleg lítil bók um latínu á Íslandi

Suðurlandsútgáfan hefur nýlega sent frá sér bókina Nota Bene – latína á Íslandi eftir Jón R. Hjálmarsson fyrrverandi skólastjóra í Skógum og fræðslustjóra á Selfossi.

Í bókinni er sagt frá latneskum áhrifum hér á landi og nefnd dæmi þar um svo sem í mannanöfnum, máli kirkju og skóla og ýmsu fleira. Þá eru í bókinni latneskar bænir, ljóð, sögur og sagnir og ýmiss annar fróðleikur auk latneskra orðtaka, spakmæla og algengra skammstafana.

Bókin var gefin út í tilefni níræðisafmælis höfundar í mars sl. en eins og hann segir í formála var latínan meðal höfuðnámsgreina í máladeild þegar hann var í menntaskóla fyrir rúmum sextíu árum. Síðan þá hefur dregið mjög úr vægi latínunnar en þetta tungumál var gríðarmikill áhrifavaldur um aldir og áhrifa latínunnar gætir víða í íslensku sem og í fjölmörgum öðrum tungumálum.

Jón hefur sent frá sér fjölmargar bækur á undanförnum áratugum, meðal annars þjóðvegabækurnar vinsælu Þjóðsögur við þjóðveginn, Íslendingasögur við þjóðveginn og fleiri bækur í þeirri röð sem og History of Iceland og fleiri bækur tengdar sagnfræði.