Frí Draugaferð á morgun

Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá því Guðmundur Tyrfingsson ehf fór fyrstu Draugaferðina með Þór Vigfússyni sagnameistara verður boðið upp á fría Draugaferð laugardaginn 20. nóvember.

Farið verður frá Olís við Rauðavatn í Reykjavík kl. 13:00 og frá höfuðstöðvum Guðmundar Tyrfingssonar ehf á Selfossi kl. 14:00 þar sem hin eiginlega Draugaferð hefst.

Bifreið sú sem mun leiða lestina er fyrsta bifreiðin sem Guðmundur Tyrfingsson hóf starfsemi á árið 1967 en um er að ræða Dodge Weapon árgerð 1953. Bifreið þessi tekur 14 farþega í sæti og var endurgerð síðastliðinn vetur. Í framhaldi verður hægt að leigja bifreið þessa í Draugaferðir fyrir minni hópa sem og aðrar viðhafnarferðir. Aðrar rútur frá Guðmundi Tyrfingssyni ehf munu svo fylgja á eftir og notaður verður útvarpssendir til að leiðsögn Þórs heyrist milli bifreiða. Guðmundur Tyrfingsson ehf fagnaði nýverið 40 ára afmæli fyrirtækisins og hefur í dag upp á að bjóða yfir 40 rútur og 1270 farþegasæti.

Ferð þessi verður í boði Guðmundar Tyrfingssonar ehf á meðan sætafjöldi leyfir og er áhugasömum bent á að tryggja sér miða sem fyrst í síma 482 1210 eða á netfangið gt@gtyrfingsson.is