Það er hverju samfélagi mikilvægt að búa að góðu menningarstarfi. Í tæp fimmtán ár hefur leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja sett upp sýningar nánast annað hvert ár. Ekki aðeins til að auðga anda leikhópsins heldur einnig til þess að gleðja sveitunga sína. Sú gleði smitast í raun út um allar Uppsveitirnar og niður Árnessýslu í þessu tilviki, því Gnúpverjar völdu nú að setja á svið einn allra vinsælasta farsa síðustu ára, Sex í sveit.
Atburðarrásin verður ekki rakin hér í smáatriðum. Vinirnir Benedikt og Ragnar ætla að eyða helginni í sumarbústað við Eyjafjörðinn með viðhaldi Benedikts og hafa pantað á staðinn kokk frá veisluþjónustu Saxbautans. Þórunn, eiginkona Benedikts, er á leið austur á land að heimsækja móður sína, svo að þeir vinirnir geta svallað í friði – alveg þangað til Þórunn fréttir að Ragnar sé væntanlegur, því þau eru að stinga saman nefjum. Móðir hennar veikist þá skyndilega af inflúensu og það flækir heldur betur málin.
Sex í sveit er frábær farsi, leynimakk og misskilningur á misskilning ofan, með orðaleikjum og allskonar vitleysu þar sem kóngurinn Gísli Rúnar Jónsson er í essinu sínu en hann þýddi og staðfærði verkið, sem er eftir Frakkann Marc Camoletti. Það er mikið flug á hlutunum framan af en eftir hlé þyngist róðurinn aðeins enda þarf höfundurinn að hafa fyrir því að hnýta alla lausa enda og má reyndar deila um hvort það hafi tekist.
Leikstjórinn Björk Jakobsdóttir hefur hér unnið frábært starf. Þó að hún sé með góðan efnivið í höndunum þá er ekki hlaupið að því að koma öllu heim og saman. Björk hefur hins vegar haldið gríðarlega vel á spöðunum, leikgleðin er mikil en hvergi neinar framúrkeyslur. Hraðinn er mikill, sérstaklega fyrir hlé og þurfa leikararnir að leika mikinn línudans til þess að halda uppi hraðanum og koma öllum textanum til skila.
Leikararnir fara á kostum allir sem einn. Mest mæðir á Gylfa Sigríðarsyni í þriggja skyrtu hlutverki Benedikts. Hann þarf að halda hlutunum gangandi frá fyrstu mínútu og gerir það frábærlega enda er Gylfi gamanleikari af Guðs náð. Magnea Gunnarsdóttir spilar á allan tilfinningaskalann og er bráðfyndin sama hvort Þórunn er gröð eða grátandi. Ævar Austfjörð á fjölmörg skemmtileg augnablik sem Ragnar og Dísa Björk Birkisdóttir er hrikalega fyndin í hlutverki fyrirsætunnar Sóleyjar og skilaði öllum sínum texta vel. Senuþjófurinn er hins vegar Oddrún Ýr Sigurðardóttir fékk salinn til þess að veltast um af hlátri sem hinn norðlenski kokkur og fór gjörsamlega á kostum í frábæru hlutverki. Til að auka enn frekar á vitleysuna í lokin mætir svo hinn ungi Þrándur Ingvarsson til leiks sem sonur kokksins. Þrándur á ekki langt að sækja leiklistarhæfileikana og hann fékk salinn til að öskra úr hlátri á lokasprettinum.
Það var fullur salur í Árnesi síðasta þriðjudagskvöld. Viðtökur áhorfenda voru frábærar og lofa góðu fyrir framhjáhaldið… framhaldið hjá Gnúpverjum! Þetta má sýna langt fram yfir sauðburð.
Guðmundur Karl Sigurdórsson