Frábærar móttökur á Höfn – tvennir tónleikar um helgina

Frá tónleikunum á Höfn síðastliðinn sunnudag. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands, Kvennakór Hornafjarðar, Alexander Jarl Þorsteinsson tenór, Monica Iusco sópran og Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hélt sína fyrstu óperutónleika á Höfn á sunnudagskvöldið. Aðalsöngvari tónleikanna var Alexander Jarl Þorsteinsson tenór en auk hans kom fram sópransöngkonan Monica Iusco og Kvennakór Hornafjarðar.

Hljómsveit, einsöngvurum, kór og hljómsveitarstjóra var fagnað innilega með standandi lófataki og óskum um fleiri heimsóknir hljómsveitarinnar. Á mánudagsmorguninn voru svo skólatónleikar fyrir 120 nemendur í Grunnskóla Hornarfjarðar sem einnig voru sérlega ánægjulegir.

Eldheimar á föstudagskvöld
Föstudaginn 29. september verður svo haldið til Vestmannaeyja og án efa eiga Vestmannaeyingar eftir að fagna sínum manni en Alexander Jarl er alinn upp í Vestmannaeyjum og átti sér þann draum sem lítill strákur að mæta einn daginn til Eyja ásamt sinfónískri hljómsveit og syngja fyrir sitt fólk. Nú er sá draumur að rætast.

Tónleikarnir í Vestmannaeyjum verða í Eldheimum kl. 19 og efnisskráin er sú sama og á Höfn en á tónleikunum í Eyjum mun Kvennakór Vestmannaeyja koma fram með hljómsveitinni.

Selfosskirkja á laugardag
Þriðju og síðustu óperutónleikar hljómsveitarinnar að sinni verða í Selfosskirkju laugardaginn 30. september klukkan 17. Einsöngvarar eru sem áður Alexander Jarl og Monica Iusco og einnig koma fram konur úr Kvennakór Hornafjarðar, Kvennakór Vestmannaeyja og Kammerkór Norðurlands.

Fyrri greinBændafundir Líflands á Hvolsvelli og Selfossi
Næsta grein„Mér finnst ég ansi heppin að fá að upplifa þetta ævintýri“