Frábær skemmtun í Njálsbúð

„Gott er að borða gulrótina,“ segir í grænmetisvísum Egners en Dýrin í Hálsaskógi minna okkur ekki bara á að grænmeti sé hollt heldur líka hvernig samfélagi er gott að búa í. Það er mikilvægt fyrir æskuna hverju sinni að fá upprifjun í því að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir, og ekki síður að maður má ekki stela til að framfleyta sér. Þó ekki væri nema út á boðskapinn ætti fólk að flykkjast í Njálsbúð – en uppsetningin er frábær þar fyrir utan og rós í hnappagat leikstjórans, Guðrúnar Höllu.

Leikfélagi Rangæinga tekst vel upp í að koma stórvirkinu um Dýrin í Hálsaskógi á svið í Njálsbúð. Ekki dugar minna til en hringsvið með þremur leikmyndum og verður að segjast að frágangurinn á sviðsmyndinni allri er frábær. Það á ekki bara við snilldina að koma hringsviðinu upp á þessu litla sviði heldur öll úthugsuðu smáatriðin sem gera heildarmyndina svo góða. Leikmyndahönnuðirnir Jón Sigurðsson og Gunnhildur Þórunn Jónsdóttir eru að gera frábæra hluti.

Í Hálsaskógi býr fjöldi dýra og því þarf nokkuð breiðan leikhóp til að koma verkinu á svið. Aðalleikararnir standa sig með prýði, Steindór Tómasson er mjög skemmtilegur Mikki refur og Aron Nökkvi Ólafsson fer létt með hlutverk Lilla klifurmúsar þó að hann skorti þjálfun í raddbeitingu. Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Vilborg María Ísleifsdóttir gera vel í skemmtilegum hlutverkum Hérastubbs og Bakaradrengs og þá er Jóhann Björnsson sérstaklega skeleggur Marteinn skógarmús. Stærstu plúsana fær hins vegar bangsafjölskyldan, þau Sigurgeir Ingólfsson bangsapabbi, Þórunn Elfa Stefánsdóttir bangsamamma og Birta Sólveig Söring Þórisdóttir en Birta fer mjög örugglega með hlutverk bangsastráksins. Þá má ekki gleyma fingraliprum undirleikaranum, Einari Guðmundssyni.

En það skiptir nú ekki öllu máli hvað mér finnst, þó að ég hafið verið einn af þeim sem hlustaði þúsund sinnum á Bessa og Árna af gatslitinni vínylplötu í æsku og þykist þess vegna vera einhver Hálsaskógarsérfræðingur. Það sem mestu máli skiptir er að börnin skemmti sér vel og það gerðu þau greinilega, enda hetjurnar á sviðinu í góðu sambandi við salinn.

Fjögurra ára gagnrýnandi sem sat í fanginu á mér (af því að það var mikið af stóru fólki fyrir framan) skemmti sér vel á sýningunni. „Það var skemmtilegt þegar Lilli klifurmús var að syngja en leiðinlegt að bangsahúnninn var lokaður inni í búri. Hann var strákur en samt var stelpa að leika hann.“

Já, það fer ekkert framhjá glöggum augum ungdómsins sem líklega eru hörðustu gagnrýnendurnir – og þau virtust sátt. Þá er markmiðinu náð.

Guðmundur Karl Sigurdórsson og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir.

Fyrri greinBjarni Harðar: Alltaf sami framsóknarmaðurinn
Næsta greinHnúajárni beitt í líkamsárás