Forsmekkurinn af flóðinu í Bókakaffinu

Þrátt fyrir ýmiskonar mótlæti er Menningarsumrinu í Bókakaffinu á Selfossi hvergi nærri lokið, en sunnudaginn 6. september verður upplestur undir yfirskriftinni Áður en flóðið kemur.

Sama fyrirkomulag verður og á fyrri viðburðum menningarsumarsins, lesið tvisvar sinnum kl. 14 og 15. Í ljósi hertra samkomutakmarkana verða fjöldatakmarkanir á lestrana strangari en áður. Einungis eru 12 miðar í boði á hvorn upplestur og nauðsynlegt að panta miða hjá Hörpu Rún í síma 8685196 eða með pósti á netfangið harparunholum@gmail.com.

Aðgangur er eftir sem áður ókeypis og kaffi í boði.

Upplesturinn er einskonar forsmekkur á jólabókaflóðið og tilvalið að byrja snemma á að kynna sér hvað er þar í boði. Þeir kumpánar Bjarni Harðarson og Guðmundur Brynjólfsson munu fara á sínum hefðbundnu kostum og kynna síðust bækur þríleikja sinna. Bjarni lokar gullhreppahringnum með Síðustu dögum Skálholts, en Guðmundur heldur sig nær ströndinni í Síðasta barninu.

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir fer með lesendum sínum norður yfir heiðar í bókinni Aldrei nema kona sem notið hefur mikilla vinsælda. Vilborg Davíðsdóttir efnir síðan heit sitt og kemur aftur og les úr bókinni sem hún sýndi okkur brot úr í fyrra. Traustir upplestrargestir muna að Vilborg las þar í fyrsta sinn opinberlega úr verki í vinnslu og hét á Bókakaffið að ljúka bókinni innan árs. Bókin er væntanleg í lok október og eiga gestir vísast von á góðu að skyggnast á ný í heim skáldsins.

Tónlistarflutningur verður að þessu sinni í höndum Gunnlaugs Bjarnasonar, baritonsöngvara og við píanóið verður Hafsteinn Rúnar Jónsson. Þeir félagar munu flytja ljóðasöngva sem tengjast ám eftir bandarísku tónskáldin Aaron Copland og Charles Ives.

Vegna fjöldatakmarkana verður hægt að fylgjast með seinni upplestrinum í streymi á facebooksíðu viðburðarins, Menningarsumarið í Bókakaffinu. Fólk er hvatt til að tryggja sér miða tímanlega, því mjög takmarkaður sætafjöldi er í boði.

Bjarni Harðarson.
Guðmundur Brynjólfsson.
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir.
Gunnlaugur Bjarnason.
Fyrri greinGuðjón Halldór sveitarlistamaður Rangárþings eystra
Næsta greinBiskupstungnabraut lokuð vegna malbikunarvinnu