„Form og flæði“ í Listagjánni

Helena Rut verður með myndlistasýningu í Listagjánni í Bókasafni Árborgar út júlímánuð.

Helena Rut er fædd í Vestmannaeyjum en hefur búið mestalla ævi sína á Selfossi. Hún hefur stundað myndlist og hverskyns listsköpun frá barnsaldri ásamt því að sækja listnám í Fjölbrautarskóla Suðurlands.

Verk hennar einkennast af abstrakt, línum, formum og lifandi litum, en áhugasvið hennar í myndlist er jafnvel enn víðara.

Bókasafn Árborgar býður fólk velkomið að njóta listarinnar á þessari fyrstu sýningu Helenu Rutar, „Form og flæði“. Nálgast má upplýsingar um verð verkanna o.fl. á sýningunni.